Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í mars sjöunda mánuðinn í röð. Í frétt á vef Analytica segir að miðað við staðlaða mælikvarða þá sé um að ræða marktæka vísbendingu um jákvæðar horfur.

Fjórir af sex undirliðum hagvísisins hækka frá í febrúar. Analytica segir þróun væntingavísitölu Gallup og aukning aflamagns hafa mest að segja á jákvæðu hliðinni. Þá virðist vöruinnflutningur að glæðast.

„Umtalsverð óvissa er áfram tengd þróun alþjóðastjórnmála sem og óvissa í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi.“

Leiðandi hagvísir Analytica hefur hækkað sjö mánuði í röð.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.

Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.