Fjölskyldurekna sælgætisfyrirtækið Mars, sem framleiðir meðal annars M&M og Snickers, er við það að klára kaupsamning á fyrirtækinu Kellanova, sem framleiðir snarlið Cheez-It og Pringles.
Samkvæmt Reuters er virði kaupsamningsins um 30 milljarðar dala og mun Mars greiða 83,50 dali á hvern hlut fyrir Kellanova.
Tilboðið er á 33% yfirverði samkvæmt gengi Kellanova við lokun 2. ágúst sl. en hlutabréf félagsins hækkuðu um 8% í framvirkum viðskiptum í dag.
Samningurinn kemur á sama tíma og bandarísk matvælafyrirtæki eins og Kraft Heinz, Mondelez og Hershey glíma við erfitt markaðsumhverfi þar sem viðskiptavinir leita nú að ódýrari valmöguleikum frekar en þekktum vörumerkjum.
Það er ekki búist við því að kaupin muni lenda í stórum erfiðleikum í tengslum við samkeppnislög, sérstaklega vegna takmarkaðs framboðs hjá báðum fyrirtækjum.