Eignarhaldsfélagið Mata hf. og tengt félag þess, Brimgarðar ehf., hafa minnkað beina og óbeina hlutdeild sína í fasteignafélaginu Heimar með því að selja um fjórar milljónir hluta.
Eftir viðskiptin fer samanlagður atkvæðisréttur félaganna niður í 4,98% og fer þar með undir lögbundin flöggunarmörk samkvæmt lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa.
Í tilkynningu sem birt var Kauphöllinni í gær kemur fram að viðskiptin áttu sér stað 16. maí. Fyrir viðskiptin áttu Mata hf. og Brimgarðar ehf. samtals 45.469.349 atkvæði í Heima hf., sem samsvaraði 2,35% beinum og óbeinum eignarhlut í félaginu.
Að auki áttu þau fjármálagerninga sem gáfu rétt til allt að 46.300.000 atkvæða til viðbótar, eða 2,62% af heildaratkvæðamagni.
Eftir viðskiptin nemur samanlagður atkvæðisréttur þeirra 87.769.349 atkvæðum, eða 4,98% af heild. Þar með eru félögin ekki lengur flöggunarskyld í Heimum, þar sem þau hafa farið undir 5% viðmiðunarmörkin sem kveðið er á um í lögum.
Ekki kemur fram í tilkynningunni hverjir keyptu hlutina né á hvaða verði viðskiptin fóru fram. Slíkar upplýsingar eru ekki hluti af lögbundinni flöggunarskyldu.
Við mat á tilkynningunni má þó áætla að um sé að ræða sölu á nákvæmlega 4 milljónum hluta, þar sem heildarfjöldi beinna atkvæða lækkar úr 45,5 milljónum í 41,5 milljónir.