Segja má að mathalla-æði hafi gripið landsmenn og þær sprottið upp eins og gorkúlur á undanförnum árum, þá aðallega í höfuðborginni. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst eru mathallir landsins nú orðnar tíu talsins, auk þess sem uppi eru áform um að opna a.m.k. sex mathallir til viðbótar, á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Höfn.
Kvikk, veitingahúsatorg sem staðsett var þar sem verslun Galleri 17 er nú til húsa í Kringlunni, er talin vera fyrsta mathöll landsins. Hið sáluga Stjörnutorg, sem veik af þriðju hæð Kringlunnar á dögunum, tók svo við keflinu og var um áraraðir eina eiginlega mathöll landsins. Árið 2017 fór mathallamenningin aftur á móti að ryðja sér til rúms hér á landi er Hlemmur, sem áður hýsti aðalskiptistöð Strætó, var tekinn í gegn og ný mathöll opnuð í húsnæðinu. Frá þeim tíma hefur mathöllunum svo fjölgað með hverju árinu. Hér að neðan verða allar starfandi mathallir landsins kynntar til leiks.
Hlemmur mathöll
Hlemmur mathöll opnaði dyr sínar fyrir almenningi á Menningarnótt árið 2017. Eins og fyrr segir var Hlemmur áður aðalskiptistöð fyrir strætisvagnafarþega áður en Reykjavíkurborg ákvað að ráðast í miklar endurbætur á húsnæðinu til að geta opnað þar mathöll af erlendri fyrirmynd. Framkvæmdirnar gengu þó ekki snurðulaust fyrir sig, eins og vildi verða með framkvæmdir sem borgin réðist á á þessum tíma. Framkvæmdin tók mun lengri tíma en til stóð, auk þess sem kostnaður hennar fór langt fram úr áætlunum og samþykktum fjárheimildum. Seinni hluta ágústmánaðar árið 2017 fengu Íslendingar loks sýna fyrstu mathöll, a.m.k. að nafninu til. Við það fór mathalla-boltinn að rúlla af stað og virðist ekkert ætla að stöðva för hans í bráð.
Grandi mathöll
Sumarið 2018, eða tæplega einu ári eftir að mathöllin á Hlemmi opnaði, var komið að opnun annarrar mathallar. Í þetta skiptið fengu íbúar vesturhluta Reykjavíkurborgar mathöll í sitt nærumhverfi er Grandi mathöll opnaði fyrir gesti og gangandi. Eins og nafnið gefur til kynna er mathöllin staðsett úti á Granda, nánar til tekið í Húsi sjávarklasans. Helst fyrirmynd mathallarinnar er er mathöllin Copenhagen Street Food á Papirsöen í Kaupmannahöfn. Slegist var um meðal veitingafólks að hreppa pláss í mathöllinni en að lokum hrepptu níu aðilar hnossið. Mathöllin hefur tekið breytingum frá opnun og starfa nú sjö veitingastaðir innan veggja hennar.
Mathöll Höfða
Í lok mars 2019 tóku íbúar efri byggða Reykjavíkur gleði sína er Mathöll Höfða opnaði í hjarta Reykvísks-raunhagkerfis á Bíldshöfða. Sólveig Guðmundsdóttir og Steingerður Þorgilsdóttir stóðu fyrir opnun mathallarinnar. Í samtali við Viðskiptablaðið bentu þær á að höfðinn sé sterkt atvinnusvæði, auk þess sem staðsetningin sé í grennd við þessar fjölmennu efri byggðir; Grafarvog, Grafarholt og Árbæ. Þær hafi því séð mikil tækifæri í að opna mathöll á svæðinu. Níu veitingastaðir eru reknir í Mathöll Höfða í dag.
Borg29
Tveimur árum og einum heimfaraldri síðar var komið að opnun næstu mathallar landsins. Í þetta skiptið fékk Borgartúnið, sem gárungar kalla sumir hverjir Wall Street Íslands, mathöll í nærumhverfi sitt. Eins og nafn mathallarinnar ber með sér er hún staðsett í Borgartúni 29 og stóð uppistandarinn og fagfjárfestirinn Björn Bragi Arnarsson fyrir opnun hennar ásamt fjórum öðrum. Rétt eins og í Mathöll Höfða eru níu veitingastaðir í Borg29.
Nánar er fjallað um mathallir landsins í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.