Reykjavíkurborg lauk reikningsári 2024 með jákvæðri rekstrarniðurstöðu í samstæðu A- og B-hluta upp á 10,7 milljarða króna.
Þetta er viðsnúningur upp á nærri 14 milljarða frá árinu 2023, þegar borgin skilaði 3,2 milljarða halla.
Við fyrstu sýn virðist sem borgin hafi náð góðum tökum á fjármálum sínum, en skoðun á skýringum með ársreikningi leiðir í ljós að meginástæðan fyrir bættum afköstum er ekki minni útgjöld heldur auknar skatttekjur og bókhaldslegar breytingar á virði eigna sem færðar eru til tekna í reikningunum.
Árið 2024 nýtti borgin sér heimildir til endurmats og matsbreytinga á eignum sem leiddu til umtalsverðs aukins virðis í efnahagsreikningi.
Þar vó mest endurmat á framleiðslu- og dreifikerfum Orkuveitu Reykjavíkur, sem leiddu til 6,9 milljarða hækkunar á bókfærðu virði þeirra.
Ákvörðunin byggði á því að uppfæra stofnverð og leiðrétta fyrningar í samræmi við þróun byggingarvísitölu og nýjar matsforsendur. Matsbreytingar á fjárfestingaeignum skiluðu jafnframt 2,8 milljarða króna tekjufærslu og hækkun bókfærðs lóðamats um 2,6 milljarða króna var færð beint til hækkunar á eigin fé.
Þessar færslur, sem eru að mestu reikningshaldslegs eðlis og hafa takmörkuð áhrif á raunverulega handbæra fjárstöðu borgarinnar, höfðu þó afgerandi áhrif á rekstrarreikning og eiginfjárhlutföll. Án þeirra hefði niðurstaðan orðið talsvert lakari, enda leyndust víða þungir kostnaðarliðir í daglegum rekstri borgarinnar, einkum í skóla- og velferðarþjónustu.
Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir Reykjavíkurborgar og tengdra fyrirtækja 978,8 milljörðum króna í árslok 2024, sem er hækkun um 35 milljarða á milli ára.
Eigið fé hækkaði í 454 milljarða og jókst um 16,8 milljarða frá fyrra ári. Mikill hluti þeirrar hækkunar stafar beint af matsbreytingum og endurmati eigna.

Á móti kemur að skuldastaða borgarinnar heldur áfram að vaxa. Hreinar vaxtaberandi skuldir jukust um 23 milljarða milli ára en hreinar skuldir jukust um 25 milljarða.
Heildarskuldir námu 525 milljörðum. Þótt skuldaviðmið Reykjavíkurborgar, sem samkvæmt lögum skal ekki fara yfir 150%, hafi verið 104% við lok árs, og því innan marka, þá sýnir þróunin að borgin glímir við áframhaldandi fjármögnunarþörf, sérstaklega vegna stórra fjárfestinga í innviðum.
Félagsbústaðir hf. skiluðu jafnframt matsbreytingu upp á 2.177 milljónir króna, sem hluta af endurmati á eignasafni félagsins. Þá nam hækkun bókfærðs lóðamats 2.594 milljónum króna, sem þó fór ekki í rekstrarreikning heldur færðist beint inn á eigið fé.
Vaxtakostnaður hélt áfram að vega þungt í rekstri, en þó hafði lækkun verðbólgu og endurfjármögnun með betri kjörum jákvæð áhrif.
Fjármagnsliðir A-hluta urðu 1,2 milljörðum betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun, meðal annars vegna lægri verðbóta og hagræðingar í skuldastýringu.
Þrátt fyrir bókhaldslegan viðsnúning voru margir helstu kostnaðarliðir borgarinnar áfram yfir fjárheimildum.
Launakostnaður hjá skóla- og frístundasviði fór 1,8 milljörðum fram úr áætlun og rekstur barnaverndar og þjónustu við fatlað fólk fór einnig verulega fram úr fjárveitingum. Þá var vetrarþjónusta, sem hefur árlega farið fram úr fjárhagsáætlun, tæplega 1,2 milljörðum umfram áætlun árið 2024.
Reykjavíkurborg hefur boðað áframhaldandi aðhald í rekstri og endurskoðun á úthlutun fjárheimilda, sérstaklega í grunnskóla- og leikskólakerfinu.
Árið 2025 verður tekið upp nýtt úthlutunarlíkan fyrir leikskóla og ráðningareftirlit hefur verið hert til að ná tökum á launakostnaði.
Undirritaður hefur verið lánasamningur við Þróunarbanka Evrópuráðsins um fjármögnun viðhalds í skólahúsnæði og borgin hefur aukið notkun innlendra skuldabréfamarkaða.
Þessar aðgerðir gefa vísbendingu um að stjórnendur borgarinnar séu meðvitaðir um skuldasöfnunina og vilji nýta kjörin til að breyta samsetningu skuldastöðunnar á hagkvæman hátt.