Reykja­víkur­borg lauk reikningsári 2024 með jákvæðri rekstrarniður­stöðu í sam­stæðu A- og B-hluta upp á 10,7 milljarða króna.

Þetta er viðsnúningur upp á nærri 14 milljarða frá árinu 2023, þegar borgin skilaði 3,2 milljarða halla.

Við fyrstu sýn virðist sem borgin hafi náð góðum tökum á fjár­málum sínum, en skoðun á skýringum með árs­reikningi leiðir í ljós að megin­ástæðan fyrir bættum af­köstum er ekki minni út­gjöld heldur auknar skatt­tekjur og bók­halds­legar breytingar á virði eigna sem færðar eru til tekna í reikningunum.

Árið 2024 nýtti borgin sér heimildir til endur­mats og mats­breytinga á eignum sem leiddu til um­tals­verðs aukins virðis í efna­hags­reikningi.

Þar vó mest endur­mat á fram­leiðslu- og dreifi­kerfum Orku­veitu Reykja­víkur, sem leiddu til 6,9 milljarða hækkunar á bók­færðu virði þeirra.

Ákvörðunin byggði á því að upp­færa stofn­verð og leiðrétta fyrningar í samræmi við þróun byggingar­vísitölu og nýjar mats­for­sendur. Mats­breytingar á fjár­festinga­eignum skiluðu jafn­framt 2,8 milljarða króna tekju­færslu og hækkun bók­færðs lóðamats um 2,6 milljarða króna var færð beint til hækkunar á eigin fé.

Þessar færslur, sem eru að mestu reiknings­halds­legs eðlis og hafa tak­mörkuð áhrif á raun­veru­lega hand­bæra fjár­stöðu borgarinnar, höfðu þó af­gerandi áhrif á rekstrar­reikning og eigin­fjár­hlut­föll. Án þeirra hefði niður­staðan orðið tals­vert lakari, enda leyndust víða þungir kostnaðar­liðir í dag­legum rekstri borgarinnar, einkum í skóla- og vel­ferðarþjónustu.

Sam­kvæmt efna­hags­reikningi námu heildar­eignir Reykja­víkur­borgar og tengdra fyrir­tækja 978,8 milljörðum króna í árs­lok 2024, sem er hækkun um 35 milljarða á milli ára.

Eigið fé hækkaði í 454 milljarða og jókst um 16,8 milljarða frá fyrra ári. Mikill hluti þeirrar hækkunar stafar beint af mats­breytingum og endur­mati eigna.

Á móti kemur að skuldastaða borgarinnar heldur áfram að vaxa. Hreinar vaxtaberandi skuldir jukust um 23 milljarða milli ára en hreinar skuldir jukust um 25 milljarða.

Heildar­skuldir námu 525 milljörðum. Þótt skulda­viðmið Reykja­víkur­borgar, sem sam­kvæmt lögum skal ekki fara yfir 150%, hafi verið 104% við lok árs, og því innan marka, þá sýnir þróunin að borgin glímir við áfram­haldandi fjár­mögnunarþörf, sér­stak­lega vegna stórra fjár­festinga í inn­viðum.

Félags­bústaðir hf. skiluðu jafn­framt mats­breytingu upp á 2.177 milljónir króna, sem hluta af endur­mati á eigna­safni félagsins. Þá nam hækkun bók­færðs lóðamats 2.594 milljónum króna, sem þó fór ekki í rekstrar­reikning heldur færðist beint inn á eigið fé.

Vaxta­kostnaður hélt áfram að vega þungt í rekstri, en þó hafði lækkun verðbólgu og endur­fjár­mögnun með betri kjörum jákvæð áhrif.

Fjár­magns­liðir A-hluta urðu 1,2 milljörðum betri en gert hafði verið ráð fyrir í fjár­hagsáætlun, meðal annars vegna lægri verðbóta og hag­ræðingar í skuldastýringu.

Þrátt fyrir bók­halds­legan viðsnúning voru margir helstu kostnaðar­liðir borgarinnar áfram yfir fjár­heimildum.

Launa­kostnaður hjá skóla- og frí­stunda­sviði fór 1,8 milljörðum fram úr áætlun og rekstur barna­verndar og þjónustu við fatlað fólk fór einnig veru­lega fram úr fjár­veitingum. Þá var vetrarþjónusta, sem hefur ár­lega farið fram úr fjár­hagsáætlun, tæp­lega 1,2 milljörðum um­fram áætlun árið 2024.

Reykja­víkur­borg hefur boðað áfram­haldandi aðhald í rekstri og endur­skoðun á út­hlutun fjár­heimilda, sér­stak­lega í grunnskóla- og leikskóla­kerfinu.

Árið 2025 verður tekið upp nýtt út­hlutunar­líkan fyrir leikskóla og ráðningar­eftir­lit hefur verið hert til að ná tökum á launa­kostnaði.

Undir­ritaður hefur verið lána­samningur við Þróunar­banka Evrópuráðsins um fjár­mögnun viðhalds í skóla­húsnæði og borgin hefur aukið notkun inn­lendra skulda­bréfa­markaða.

Þessar að­gerðir gefa vís­bendingu um að stjórn­endur borgarinnar séu meðvitaðir um skuldasöfnunina og vilji nýta kjörin til að breyta sam­setningu skuldastöðunnar á hag­kvæman hátt.