Indverski veitingastaðurinn Funky Bhangra opnaði nýlega í Gnoðavogi 44 þar sem Bragðlaukar, Vefjan og Dominos voru áður til húsa. Funky Bhangra er nú á tveimur stöðum í Reykjavík en sá fyrsti opnaði í Pósthús Mathöll haustið 2023.

Eigendur Funky Bhangra eru hjónin Arngrímur Fannar Haraldsson, einn af prímusmótorum Skítamórals, og einkaþjálfarinn Yesmine Olsson, sem hefur meðal annars tekið upp sjónvarpsþætti um mat og gefið út fjórar matreiðslubækur.

Þau segja að móttökurnar við Pósthús Mathöll hafi verið frábærar en vildu hins vegar færa sig fjær miðbænum til að geta boðið upp á matinn á hentugri stað.

„Það hafa verið áskoranir frá mörgum að komast aðeins út úr miðbænum og að geta líka verið með take-away þar sem það er mjög erfitt fyrir marga að komast að niður í bæ. Við ákváðum því að finna okkur stað sem var þokkalega miðsvæðis í Reykjavík og okkur fannst þessi staðsetning í Gnoðavogi kjörin,“ segir Arngrímur.

Hjónin hafa nú verið með mjúka opnun í rúma viku á meðan veitingastaðurinn er að koma sér fyrir. Arngrímur segir að það verði bráðum í boði að panta í gegnum Wolt en þangað til geta viðskiptavinir einnig pantað mat á heimasíðu Funky Bhangra.

„Við erum ekki að einblína á þennan hefðbundna indverska mat. Yesmine er frá Sri Lanka en hún er alin upp í Svíþjóð. Hún bjó líka lengi í Bretlandi og Danmörku áður en hún flutti til Íslands fyrir 25 árum síðan. Maturinn hennar er því svona fusion af öllu þessu saman.“

Yesmine segist hafa lært indverska matargerð bæði á Indlandi og fór einnig í indverskan matreiðsluskóla í New York. Hún fór síðan að vinna á indverskum Michelin-veitingastað og fannst eins og hún væri að elda matinn vitlaust.

„Ég er nefnilega ekki alin upp með indverska ömmu og afa og hef því bara stúderað matargerðina. Ég ákvað samt bara að taka allt þetta sem var í kringum mig og vera trú mínum stíl og halda áfram að gera það sem ég var að gera.“

Hún segir að margir spyrji út í nafnið en Bhangra er ákveðinn dans sem kemur frá Punjab-héraði á Indlandi og er dansinn tekinn til að fagna uppskerutímabilinu. Funky er sett fyrir framan til að sýna að þau séu óhefðbundin og bjóða upp á blöndu.

„Ég myndi segja að Bhangra sé glaðasti dans í heimi en það sem ég sé við hann er hversu litríkur og orkumikill hann er. Það er líka það sem mér finnst maturinn okkar vera, þetta er svona matur sem fær þig til að dansa,“ segir Yesmine.