Ekkert lát virðist vera á eftirspurn eftir Ozempic og öðrum þyngdarstjórnunarlyfjum en samkvæmt The Wall Street Journal hafa matvælaframleiðendur verið að bregðast við breyttu mataræði notenda.
Þeir sem taka þyngdarstjórnunarlyf borða mun minna en áður en þá skortir þó oft ákveðin næringarefni og hefur matvælaiðnaðurinn í Bandaríkjunum ákveðið að mæta þeim þörfum með tilbúnum máltíðum fyrir notendur lyfjanna.
Þyngdarstjórnunarlyf innihalda virka efnið semaglútíð en semaglútíð er sykursýkislyf og tilheyrir flokki glúkagonlík-peptíð-1 (GLP-1) hliðstæðna.
Lyfið líkir eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem er losað úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst.
Vinsælustu þyngdarstjórnunarlyfin um þessar mundir eru Ozempic og Wegovy frá Novo Nordisk og síðan Mounjaro og Zepbound frá Eli Lilly.
Aukaverkanir lyfjanna geta verið allt frá tapi á vöðvamassa, meltingarvandræðum, ógleði, niðurgangi og hægðatregðu.
Samkvæmt nýlegri könnun neytendarannsóknafyrirtækisins Numerator sjást miklar breytingar á mataræði og neytendahegðun þeirra sem taka þyngdarstjórnunarlyf.
Í yfir þúsund manna rannsókn á þeim sem einungis taka lyfin til að grennast sást um 38% samdráttur í neyslu á smákökum, sætabrauði og kökum. Neysla gosdrykkja dróst saman um 36%, neysla á sælgæti fór niður um 34% og skyndibitaneysla dróst saman um 26%.
Á sama tíma sækja neytendur meira í heilbrigðari matvæli t.d. prótein- og trefjaríkan mat. Í sömu rannsókn kom í ljós að um 42% notenda borðuðu meira af ávöxtum og grænmeti og um 20% keyptu meira af jógúrt en áður.
„Notkun GLP-1 eru góðar fréttir fyrir okkur,“ sagði Antoine de Saint-Affrique, forstjóri Danone, á fjárfestakynningu í síðasta mánuði.
„Ef áhrif lyfjanna eru skoðuð þá er ljóst að þetta hefur áhrif á magann og vöðvamassa. Og vitið hvað? Við erum með vörur sem eru góðar fyrir magasýrurnar og próteinríkar,“ bætti hann við.
Mark Clouse, forstjóri Campbell Soup, sagði einnig nýverið að fyrirtækið ætli að markaðssetja vörur sínar sem „góðar fyrir GLP-1“ notendur.
Þá hefur Nestle ákveðið að fara af stað með sérstaka vörulínu af frosnum máltíðum sem heitir Vital Pursuit sem er sérhönnuð fyrir þarfir notenda GLP-1.
Um er að ræða til dæmis blómkálspítsu með þremur ostum á sem inniheldur 20 gr af prótíni og 4 gr af trefjum. Þá er Nestle einnig að fara af stað með fæðubótefni fyrir notendur lyfjanna.