Eldsneytiskostnaður Icelandair á öðrum ársfjórðungi var um 21 milljón dala lægri en ella á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 2,9 milljörðum króna, vegna notkun MAX-véla miðað við ef gömlu Boeing 757 vélarnar hefðu farið sömu flugferðir.

„MAX-vélarnar spöruðu okkur milljónir dala, bara á öðrum ársfjórðungi. Þær hafa verið leikbreytir (e. game changer) fyrir reksturinn okkar. Til að styðja við vaxtar- og sjálfbærnimarkmið okkar þá erum við að fjölga MAX-vélum í flotann okkar,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á fjárfestafundi í dag.

Icelandair er með þrettán Boeing 757 flugfélar í flugflota sínum í sumar og þrjár Boeing 767 flugvélar og fær sína fjórtándu fjórtán nýjar Boeing MAX 8 og MAX 9 flugvélar. Flugfélagið fær afhenta sína fjórtándu MAX-vél í lok þessa mánaðar.

Sjá einnig: Dýrkeyptara að halda í Boeing 757

Icelandair tilkynnti einnig nýlega um viljayfirlýsingu um kaup á fjórum MAX-vélum sem raðgert er að verði afhentar haustið 2022. Þá gerði Icelandair samning um langtímaleigu við BOC Aviation (BOCA) vegna tveggja nýrra Boeing 737 MAX 8 flugvéla sem gert er ráð fyrir að verði afhentar frá Boeing haustið 2023. Áætlað er því að Icelandair verði með tuttugu Boeing 737 MAX-vélar í rekstri frá og með haustinu 2023.

Verja fjórðung notkunar á næstu fjórðungum

Markaðsverð eldsneytis var um 1.292 dalir á tonn á öðrum ársfjórðungi eða um 124% hærra en á sama tíma í fyrra. Eldsneytiskostnaður Icelandair var um 35% af heildarkostnaði félagsins á öðrum ársfjórðungi samanborið við 17% á öðrum fjórðungi 2021.

Sjá einnig: Icelandair hagnast um hálfan milljarð

Eldsneytisvarnir náðu til 25% af notkun á öðrum fjórðungi á meðalverðinu 664 dalir á tonn. Icelandair áætlar að fjórðungur af notkuninni varði áfram varin á næstu tveimur fjórðungum en á hærra meðalverði. Áætlað meðalverð á stærstum hluta eldsneytisvarna á öðrum fjórðungi er 935 dalir á tonn.

Icelandair hefur haft það sem stefnu síðustu ár að verja um 40%-60% af áætlaðri notkun tólf mánuði fram í tímann og 20% næstu sex mánuði þar á eftir. Verð á eldsneyti lækkaði verulega í kjölfar útbreiðslu Covid-veirunnar sem hafði í för með sér að framvirku samningar Icelandair á eldsneyti leiddu af sér töluverðan kostnað. Flugfélagið beið því með að gera nýja samninga.

Bogi sagði í hlaðvarpsþætti Chess after Dark að flugfélagið hafi svo ætlað að koma sér upp í sama hlutfall af vörnum en það hafi tafist vegna delta- og ómíkron-afbrigða kórónuveirunnar sem leiddu til þess að flugframboð félagsins var skorið niður.

„Þannig að við fórum fyrst mjög varlega í sakirnar að verja og vorum alltaf að bíða eftir að sæjum að við værum komin út úr þessu. Svo þegar við vorum komin út úr þessu þá skellur á stríð og verðið hækkar. Þannig að við höfum aldrei komist í þennan almennilegan takt eins og við vorum í mörg ár fyrir Covid.“


Úr fjárfestakynningu Icelandair.
Úr fjárfestakynningu Icelandair.