Hamborgarakeðjan McDonald‘s hefur hækkað verð á ostborgurum sínum í Bretlandi í fyrsta sinn í fjórtán ár vegna hækkandi aðfangaverðs. Verð á ostborgara er nú 1,19 pund, eða um 163 krónur miðað við gengi dagsins, en hefur verið 0,99 pund. BBC greinir frá.

Alistair Macrow, forstjóri McDonald‘s í Bretlandi, sagði í tölvupósti til viðskiptavina að skyndibitakeðjan horfi fram á erfiða valkosti þegar kemur að verðlagningu.

„Við sýnum því skilning að verðhækkanir eru aldrei af hinu góða en við höfum frestað og dregið úr þessum breytingum eins lengi og við mögulega gátum,“ sagði Macrow. Hann bætti við að verð á tilteknum vörum verði óbreytt og að verð á öðrum vörum verði áfram breytilegt eftir veitingastöðum.

Hagnaður bandarísku McDonald‘s samstæðunnar, sem er með yfir 36 þúsund veitingastaði í heiminum, á öðrum ársfjórðungi dróst saman um rúmlega helming og nam 1,19 milljörðum dala, eða um 162 milljörðum króna. Tekjur félagsins drógust saman um 3% á milli ára og námu 5,7 milljörðum dala á fjórðungnum.