McDonald’s og kleinuhringjaverslunin Krispy Kreme hafa ákveðið að slíta samstarfi sínu en skyndibitakeðjan byrjaði að bjóða upp á kleinuhringi Krispy Kreme í mars á þessu ári. Frá og með 2. júlí nk. verða þeir ekki lengur fáanlegir.
USA Today greinir frá því að ákvörðunin hafi verið vandlega skoðuð af báðum fyrirtækjum en hamborgarakeðjan bauð upp á þrjár tegundir kleinuhringja á 2.400 veitingastöðum.
„Við vorum mjög spennt og ánægð með samstarfið við Krispy Kreme. Þeir gáfu okkur frábæra og hágæða vöru og þó svo að samstarfið uppfyllti okkar væntingar þá þurfti það líka að vera arðbært fyrir Krispy Kreme,“ segir Alyssa Buetikofer, markaðsstjóri McDonald‘s.
Samstarfið hófst með samkomulagi í apríl 2024 þar sem McDonald‘s vildi bjóða upp á kleinuhringi Krispy Kreme, sem áttu að vera sendir á staðinn að morgni til og myndu vera í boði allan daginn.