Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Co. hyggst fækka störfum um tæplega tvö þúsund. Um yrði að ræða eina af stærstu hópuppsögnum í sögu fyrirtækisins.
Heimildarmaður Wall Street Journal segir að endanleg ákvörðun um umfang hagræðingaraðgerðanna verði tekin á komandi mánuðum en tæplega 45 þúsund manns starfa hjá McKinsey.
Talsmaður McKinsey sagði í skriflegu svari að eftirspurn eftir ráðgjöf frá sérfræðingum væri áfram að aukast. Hins vegar sé fyrirtækið í fyrsta sinn í áratug að endurskipuleggja deildir sem sinna ekki þjónustu við viðskiptavini með beinum hætti.
Starfsemi ráðgjafarfyrirtækisins hefur stækkað hratt á undanförnum áratugi en starfsmenn voru um 17 þúsund talsins árið 2012.