Fjárhagsstaða knattspyrnudeildar FH hefur verið umtöluð undanfarin ár. Félagið tapaði samanlagt 43 milljónum króna á síðastliðnum tveimur árum, 2023-2024, þar af 27 milljónum á síðasta ári.
Það hefur eflaust sett strik í reikning félagsins að hafa ekki náð sæti í Evrópukeppni undanfarin ár, en félagið var á árum áður vant því að spila leiki í Evrópu á hverju tímabili. FH lék síðast í forkeppni Sambandsdeildarinnar sumarið 2021.
Þegar horft er til skuldastöðu þeirra liða, sem léku í Bestu deild karla á síðustu leiktíð, má sjá að þrjú þeirra, Fylkir, KR og FH, eru með yfirdrætti en eins og alkunna er eru slík lán einna óhagstæðust sökum hárra vaxta.
Um síðustu áramót skuldaði FH 47 milljónir króna í yfirdráttarlán samanborið við 39 milljónir árið áður. Þá skulduðu KR-ingar 21 milljón króna í yfirdráttarlán í lok árs 2024 og Fylkir 16 milljónir.
KR snúa við blaðinu
Af þeim liðum sem léku í Bestu deild karla á síðustu leiktíð er KR eitt þeirra liða sem hafa verið rekin með hvað mestu tapi síðastliðin ár. Tap knattspyrnudeildar KR nemur samanlagt 16 milljónum króna á síðastliðnum tveimur árum, þar af nam tapið 28 milljónum króna árið 2023.
Eigið fé Vesturbæjarstórveldisins var neikvætt um 50 milljónir í lok síðasta árs. Undanfarin tímabil hefur KR mistekist að komast í Evrópukeppni og hefur það haft umtalsverð áhrif á fjárhaginn. Aftur á móti virðist horfa til betri vegar í Vesturbænum því umtalað er að fjársterkir stuðningsmenn hafi lagt knattspyrnudeild KR til töluverða fjármuni frá og með síðasta tímabili.
Ársreikningur KR vegna síðasta árs ber þess merki, en félagið skilaði 12 milljóna króna hagnaði á árinu. Tekjur deildarinnar jukust um 80 milljónir á milli ára í gegnum liðinn „aðrar rekstrartekjur“. Þá seldi KR leikmenn fyrir 37 milljónir króna á árinu og keypti leikmenn fyrir 24 milljónir.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.