Opnunarhátíð Reykjavik Fringe listahátíðarinnar hófst formlega í gær á Gauknum í Reykjavík en þetta mun vera í sjötta sinn sem hátíðin fer fram. Einn af skipuleggjendum hátíðarinnar lýsir metþátttöku í ár, bæði frá listamönnum og fyrirtækjum sem koma að hátíðinni.
Fyrstu sýningarnar byrja í kvöld og stendur hátíðin yfir til sunnudags.
Listahátíðin er í anda Edinborg Fringe hátíðarinnar sem hefur verið haldið í Skotlandi síðan 1947. Hugmyndin var að koma á fót listahátíð fyrir svokallaða „jaðar-listamenn“ sem eru margir hverjir að stíga sín fyrstu skref á listasenunni en í dag er Edinborg Fringe orðin stærsta listahátíð í heimi.
Andrew Sim, skoskur grínisti og einn af skipuleggjendum Reykjavik Fringe, segir að markmiðið sé að markaðssetja hátíðina sem stærstu listahátíð Íslands. Búið sé að flytja inn mikið af frægu listafólki frá Bretlandi en með hátíðinni vill nefndin einnig styðja við dans-, leikhús- og uppistandssenuna á Íslandi.
„Við þurfum að minnsta kosti 10 sinnum meira til að geta gert þessa hátíð sjálfbæra í framtíðinni."
„Við erum líka búin að fá mikinn stuðning frá styrktaraðilum, til að mynda Mekka Wines & Spirits. Þeir hafa ekki beint gefið okkur fjárhagslegan stuðning en hafa séð um plakötin, markaðssetninguna og hafa einnig reddað okkur útvarpsviðtölum. Fyrirtækið hefur þar með hjálpað okkar að markaðssetja hátíðina bæði til ferðamanna og Íslendinga.“
Hann segir helstu stuðningsaðila hátíðarinnar vera fyrirtæki á borð við Mekka Wines & Spirits og Gray Line. Rafskútufyrirtækið Hopp gefi einnig sjálfboðaliðum hátíðarinnar ókeypis ferðir og Brauð og Co. hjálpi við að fæða starfsfólk hátíðarinnar. Fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fer þar að auki í að borga laun tæknimanna og veitingastaðir bjóða upp á afslætti til þeirra sem hafa keypt armbönd fyrir hátíðina.
„Jafnvel þó við séum að fá mikla aðstoð þá þurfum við að minnsta kosti 10 sinnum meira til að geta gert þessa hátíð sjálfbæra í framtíðinni. Eins og er þá náum við ekki að mæta öllum þeim kostnaði sem myndast við eftirspurnina. Við vonumst til að sjá fleiri þátttakendur en með aðkomu fleiri fyrirtækja gæti þetta orðið stærsta listahátíð á Íslandi,“ segir Andrew.