Það hriktir í stoðum alþjóðlega efnahagskerfisins, sem verið hefur við lýði síðustu 80 ár. Heimshagkerfið er að skreppa saman vegna efnahagsstefnu Bandaríkjanna og líkur á efnahagslegum samdrætti eða jafnvel kreppu aukast.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur uppfært efnahagsspá sína en á einungis þremur mánuðum hefur heimshagkerfið kólnað mikið.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) gerir ráð fyrir 2,8% hagvexti í heiminum á þessu ári samkvæmt efnahagsspá, sem sjóðurinn birti fyrir nokkrum dögum. Þetta er lækkun um 0,5 prósentustig frá spá sjóðsins í janúar.
Til þess að setja þetta í samhengi þá var heimshagvöxtur neikvæður í heimsfaraldinum árið 2020, sem og árið 2009 þegar bankakreppan reið yfir. AGS gerir nú ráð fyrir 3% heimshagvexti árið 2026, sem er lækkun um 0,3 prósentustig frá spánni í janúar.
Óvissan litar allt
Ástæðan fyrir versnandi horfum er fyrst og síðast óvissan, sem ríkir í heimshagkerfinu vegna efnahagsstefnu Bandaríkjanna og þá sérstaklega tollastríðsins.
Tilkynning Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, þann 2. apríl um tolla á vel flest ríki veraldar hafði strax mikil áhrif. Ákvörðunin hafði sem dæmi strax áhrif neikvæð áhrif á hlutabréfaverð á verðbréfamörkuðum um allan heim. Hlutabréfaverð hækkaði síðan aftur um miðjan apríl þegar Bandaríkjastjórn tilkynnti um 90 daga frestun á tollum gegn flestum ríkjum nema Kína. Helstu hlutabréfavísitölur eru samt enn lægri nú en þær voru fyrir 2. apríl.
Það er þessi óvissa og ófyrirsjáanleiki í efnahagsstefnu Bandaríkjanna sem er megináhrifavaldur versnandi efnahagshorfa í heiminum. Óhætt er að segja að nú hrikti vel í stoðum þess alþjóðlega efnahagskerfis, sem verið hefur við lýði síðustu 80 ár.
Þó heimshagkerfið hafi kólnað töluvert á stuttum tíma þá telur AGS að hagkerfið sé enn vel yfir hættumörkum heimssamdráttar eða kreppu (e. despite the slowdown, global growth remains well above recession levels.) Þetta kemur fram í grein Pierre-Olivier Gourinchas, efnahagsráðgjafa og rannsóknarstjóri AGS. Í skýrslu AGS eru taldar þriðjungslíkur á því að heimshagvöxtur fari undir 2% á þessu ári.
Iðnríkin, Kína og Indland
Þrátt fyrir að spáð sé 2,8% heimshagvexti á þessu ári er útlitið ekki jafnt bjart fyrir sjö helstu iðnríki heims, G7. Af ríkjunum sjö eru aðeins spáð yfir 1% hagvexti hjá þremur þeirra en það eru Bandaríkin (1,8%), Kanada (1,4%) og Bretland (1,1%). Spáð er 0 til 0,6% hagvexti hjá hinum fjórum ríkjunum en það eru Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Japan.
Þó spáð sé 1,8% hagvexti í Bandaríkjunum þá er það mikil breyting frá spá AGS í janúar en þá spáði sjóðurinn 2,7% hagvexti í landinu. Breytingin er líka mikil þegar við kemur Kanada, en í janúar spáði AGS því að hagvöxtur þar yrði 2%.
Þau ríki sem draga heimshagvöxtinn upp eru Kína, en þrátt fyrir tollastríð við Bandaríkin, er gert ráð fyrir 4% hagvexti þar á þessu og næsta ári og á Indlandi er gert ráð fyrir 6,2% hagvexti á þessu ári og 6,3% árið 2026. Þá mun aukin opinber fjárfesting á evrusvæðinu hafa jákvæð áhrif á hagvöxt en þessi fjárfesting er að stóru leyti vegna aukinna framlaga til varnarmála og innviðauppbyggingar.
Brött spá fyrir Ísland
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 2% hagvexti á Íslandi á þessu ári. Spáin bendir til þess að AGS meti stöðuna þannig að Íslands standi þokkalega í samanburði við mörg önnur ríki, þrátt fyrir erfið ytri skilyrði. Landið njóti góðs af innlendri eftirspurn og fremur stöðugum efnahag samanborið við mörg stærri hagkerfi, sem getir orðið fyrir meiri áhrifum af þeim alþjóðlegu viðskiptahindrunum, sem Bandaríkin hafi sett með tollastefnu sinni.
Spá AGS fyrir Ísland er töluvert brattari en hjá Landsbankanum og Arion banka en báðir bankarnir birtu hagspár sínar nú í apríl. Landsbankinn gerir ráð fyrir 1,4% hagvexti á þessu ári og Arion banki spáir 1,3% hagvexti.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.