Keystrike er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði netöryggis, sem undanfarin misseri hefur verið að þróa lausn, sem nefnist Sanctum Guard. Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir að með aukinni heimavinnu í Covid-heimsfaraldrinum hafi margt breyst og bendir hann til að mynda á nýja ógn í því samhengi.

Valdimar Óskarsson.
Valdimar Óskarsson.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Það er eitt sem fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir þegar það er að vinna heima. Það er kannski að vinna í sinni tölvu en svo er unglingurinn á heimilinu kannski að gera eitthvað í sinni eigin tölvu og ekki endilega með öryggið á hreinu. Það getur haft áhrif á þig af því að þið eruð á sama neti,“ segir Valdimar.

„Þegar hakkari er kominn inn í eina tölvu þá vill hann komast í þá næstu, hann vill komast í viðkvæma búnaðinn, viðkvæmu gagnagrunnana og ná í upplýsingar. Þegar hakkarinn er kominn inn í tölvuna þína þá má segja að hann sitji á öxlinni á þér og fylgist með. Þegar hann er kominn inn er ekkert sem getur bjargað þeirri tölvu."

„Við getum aldrei hindrað að hakkarinn nái yfirráðum á þinni tölvu," segir Valdimar. „En með okkar lausn, Sanctum Guard, erum við að sjá til þess að hann geti ekki farið út úr þinni tölvu og inn í einhverjar aðrar og þannig ná aðgangi að viðkvæmum kerfum og gögnum.“

Í einföldu máli má segja að Sanctum Guard greini í rauntíma þegar netglæpamenn hafa hakkað sig inn í tölvur notenda og lokar um leið á að þeir geti komist út úr kerfinu með viðkvæmar upplýsingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.