Þorsteinn Skúli Sveinsson, frambjóðandi til formanns VR, segir með öllu óásættanlegt að Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrverandi formaður VR, hafi þegið hátt í tíu milljónir króna í biðlaun eftir að hann lét af embætti á sama tíma og hann hefur fengið greidd laun frá Alþingi.

Í aðsendri grein á Vísi furðar Þorsteinn Skúli sig á því að núverandi forysta VR, þar með talið Halla Gunnarsdóttir, sem tók við sem formaður VR af Ragnari Þór í desember, skuli hafa samþykkt þessa ráðstöfun eða í það minnsta ekkert gert til að koma í veg fyrir hana.

„Félagsfólk eiga heimtingu á að vita hvernig svona ákvarðanir eru teknar og hvers vegna enginn greip inn í fyrr,“ skrifar Þorsteinn Skúli.

„Þessi greiðsla kemur beint úr sjóðum VR, sem eru fjármagnaðir af félagsgjöldum félagsfólks sem treystir á félagið til að verja þeirra réttindi.“

Morgunblaðið greindi í morgun frá því að starfslokauppgjör Ragnars Þórs, sem var formaður VR á árunum 2017-2024, hafi numið hátt í 10 milljónum króna, að stærstum hluta vegna biðlauna, sem hann óskaði eftir að fá greidd með eingreiðslu.

Gangi gegn reglum VR

Þorsteinn Skúli, sem er fyrrverandi sérfræðingur hjá VR, segir að það sem geri málið enn alvarlegra sé að VR hafi sjálft gefið atvinnurekendum ráðleggingar um að stöðva biðlaunagreiðslur til starfsmanna sem hefja störf á nýjum stað.

„Kjaramálasvið VR ráðleggur atvinnurekendum að stöðva greiðslur þegar starfsmaður hefur tekið nýtt starf, jafnvel þó að hann sé enn á uppsagnarfresti hjá fyrri atvinnurekanda. Hvernig getur sama stéttarfélag litið svo á að reglur sem það ráðleggur atvinnurekendum að fylgja eigi ekki við um eigin stjórnendur?“

Þurfi að tryggja að svona komi aldrei upp aftur

Þorsteinn Skúli segir að það þurfi að draga lærdóm af þessu máli og tryggja að svona komi aldrei aftur upp. Hann hyggist beita sér fyrir auknu gegnsæi og ábyrgari fjármálastjórnun hjá VR, hljóti hann kjör sem formaður VR.

„Félagsfólk á skilið stéttarfélag sem vinnur fyrir þá ekki stjórnendur sem veita sjálfum sér ofurlaun á leiðinni út. Það er kominn tími á breytingar.”