Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, undrast „aulaháttinn í stjórn borgarinnar“ þegar kemur að snjómokstri í færslu á Facebook. Hann lýsir því að svo virðist sem fulltrúar Viðreisnar í borgarstjórn hafi ekki hlustað á ráð sín.
„Þegar félagar mínir í Viðreisn komust að í meirihluta ráðlagði ég þeim tvennt: Annars vegar að fá óháða úttekt á rekstri og stöðu borgarinnar og hins vegar hugsa um smáu atriðin sem snúa að einstaklingunum, t.d. snjómokstur, sorphirðu og að safna jólatrjám eftir hátíðarnar (sic),“ segir Benedikt.
„Ekkert af þessu hefur verið gert. Engu hefur breytt að Framsókn bættist við með fjóra fulltrúa.“
Hann segist jafnframt hafa samviskubit yfir því að hann beri „hluta af ábyrgðinni með mínu atkvæði“ en segist þó ekki hafa séð betri kost þegar gengið var til kosninga.
„Oftast hef ég frekar litlar áhyggjur af því frá degi til dags hvort stjórnmálamenn standa sig vel eða illa. Annars væri ég eflaust í hugarvíli dagana langa en kýs hugarró. En núna verð ég að segja að aulahátturinn í stjórn borgarinnar gengur fram af mér þegar ég ösla snjóinn eða ek fjölfarnar götur þar sem vegheflar hafa greinilega ekki komið og hryggurinn í miðju strýkur undirvagninn á bílum.“
Vitlausast af öllu ef borgin kaupi sjálf snjóruðningstæki
Benedikt bætir við í athugasemd við færsluna að vitlausast af öllu væri að Reykjavíkurborg færi að kaupa snjóruðningstæki í stórum stíl í stað þess að semja við einkaaðila. Hann vísar þar til ummæla Lífar Magneudóttir, oddvita VG í borginni, í Fréttablaðinu í dag, en hún talaði fyrir því að borgin ætti sjálf að taka yfir snjómoksturinn.
Slíkt hugmynd sé „jafnvitlaus og þegar borgin stofnaði 60 manna tölvufyrirtæki á liðnu kjörtímabili.“