Meðalfjárhæð tilboða einstaklinga sem tóku þátt í tilboðsbók A í Íslandsbankaútboðinu sem lauk í gær var 2,82 milljónir króna. Fjármálaráðuneytið tilkynnti í morgun að 31.274 einstaklingar hefðu skilað inn tilboðum í tilboðsbók A.

Alls námu tilboð í tilboðsbók A 88,2 milljörðum króna. Það samsvarar um 97,4% af 90,6 milljarða króna heildarvirði útboðsins‏. Heildareftirspurn í útboðinu nam 190 milljörðum króna.

Í tilboðsbók A, sem var í forgangi, var heimilt að gera tilboð fyrir að lágmarki 100 þúsund krónur og allt að fjárhæð 20 milljónir króna.

Varðandi ofangreinda fjárhæð tilboð í bók A upp á 88,2 milljarða króna gerði ráðuneytið fyrirvara um aðlögun og leiðréttingu tilboða. Gert er ráð fyrir að fjárfestar sem gerðu tilboð í tilboðsbækur B og C verði sendar tilkynningar um úthlutun miðvikudagsmorguninn 21. maí.

Ráðuneytið sagði í gær að í útboðinu hefði verið „umtalsverð heildareftirspurn og fordæmalaus eftirspurn innanlands“.

Þess má geta að í frumútboði Íslandsbanka sumarið 2021, þar sem ríkið seldi 35% hlut, tóku 24 þúsund aðilar þátt. Af þeim tæplega 24 þúsund áskriftum sem bárust voru 16.703 áskrifendur sem þurftu ekki að sæta skerðingu. Þá fengu 5.953 hluthafar, sem voru skertir, úthlutað hlutum að andvirði 1.000.061 krónur.