Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT, lýsa yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðu Félagsdóms í máli samtakanna gegn Eflingu. Niðurstaða dómsins var að sýkna Eflingu af þremur kröfum samtakanna og vísa tveimur öðrum kröfum frá dómi.

„Það virðist vera þannig að við fáum ekkert um okkar örlög að segja, sem er náttúrulega grafalvarlegt mál. Við erum stærsta hagsmunafélag fyrirtækja á veitingamarkaði, það eru um sex þúsund störf sem að skjólstæðingar okkar bera ábyrgð á, og það er mjög sárt og eiginlega ólýðræðislegt finnst manni að vera alltaf ýtt frá borði. Upplifunin er að hingað til höfum við bara verið notuð sem peð í hagsmunabaráttu annarra,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT.

Samtökin höfðu krafist þess fyrir dómi að viðurkennt yrði að þau færu með samningsumboð fyrir félagsmenn sína gagnvart Eflingu við gerð kjarasamnings. Þá kröfðust þau þess að miðlunartillaga ríkissáttasemjara í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflinga, sem var samþykkt þann 8. mars 2023, myndi ekki gilda fyrir félagsmenn þeirra. Niðurstaða Félagsdóms var þó líkt og áður segir Eflingu í vil.

Að sögn Aðalgeirs eru samtökin að skoða það með sínum lögfræðingum hver næstu skref verða.

„Orustan er töpuð en það eru auðvitað gríðarlegir hagsmunir undir sem við munum leggja okkur alla fram við að verja. Upplifun okkar, samtakanna og skjólstæðinga, er að við séum hreinlega að berjast fyrir lífi okkar og limum og við munum þurfa að skoða hvern einasta möguleika gaumgæfilega til þess að ganga úr skugga um það að veitingaþjónusta Íslands geti haldið velli,“ segir Aðalgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.