Pierre Wunsch seðlabankastjóri Belgíu varar við því að Evrópski seðlabankinn (ECB) gæti verið að „sofna á verðinum“ og lækka vexti of hratt án nægilegrar ígrundunar.

Hann telur nauðsynlegt að peningastefnunefnd bankans sé tilbúin að stöðva frekari lækkanir á stýrivöxtum ef gögn réttlæta það ekki.

„Ég er ekki að kalla eftir hléi í apríl, en við megum ekki ganga í svefni í átt að 2 prósenta vöxtum án þess að hugsa um það,“ sagði Wunsch í viðtali við Financial Times.

„Við skulum halda þessu opnu: Ef gögnin réttlæta nýja lækkun, þá lækkum við. Ef ekki, gætum við þurft að gera hlé.“

Mikilvægi vaxtastefnunnar er í brennidepli þar sem mörg fjármálafyrirtæki gera ráð fyrir að ECB lækki stýrivexti úr 2,75 prósentum niður í 2 prósent fyrir árslok.

Þrátt fyrir að önnur 25 punkta lækkun í mars sé talin líkleg hafa sumir nefndarmenn innan bankans áhyggjur af því að markaðurinn sé að skapa þrýsting á áframhaldandi vaxtalækkanir án þess að nægileg gögn styðji þær.

Isabel Schnabel, meðlimur í framkvæmdastjórn ECB, hefur einnig gefið til kynna að vaxtalækkanir gætu verið að nálgast endapunkt.

Hún hefur þó sérstaklega varað við „hækkandi verðbólguáhættu“. Wunsch segist hins vegar vera „nokkuð afslappaður gagnvart verðbólguhorfum“.

„Að því gefnu að engin stór áföll verði, tel ég að áhættan sé tiltölulega takmörkuð, bæði upp og niður,“ sagði hann og bætti við: „Verðbólgan í Evrópu gæti orðið mest óspennandi hluti ársins 2025 – og árið 2025 verður ekki óspennandi.“

Markaðurinn túlkar orð Lagarde of bókstaflega

Wunsch vék einnig að því hvernig fjárfestar túlkuðu nýleg ummæli Christine Lagarde, forseta ECB, um að vaxtastefnan væri á „niðurleið“.

Hann sagði að orð hennar eftir vaxtalækkunina í janúar – um að ECB „viti stefnu ferðalagsins“ og að peningastefnan væri „í grófum dráttum á niðurleið“ – væru „góð lýsing á því að við værum sátt við að fara úr 3 prósentum niður í 2,75 prósent og að við gætum séð eina eða tvær lækkanir í viðbót“.

„Á einhverjum tímapunkti, sem gæti verið á næstu fundum, þurfum við að ekki bara að spyrja hvort við séum ekki á réttri leið heldur einnig á réttu hraðastigi,“ sagði Wunsch.

Lagarde sagði jafnframt við blaðamenn í janúar að það væri „algerlega ótímabært“ að ræða breytingu á stefnu. Síðan þá hefur verðbólgan hækkað óvænt í 2,5 prósent í janúar, sem er fjórða hækkunin í röð. Markmið ECB til langs tíma er 2 prósent.

Wunsch lagði áherslu á að nú ríkti óvissa um hver rétt vaxtastig væri og sagði að hann væri „ekki einu sinni viss“ um hvort vextir væru enn að hamla hagvexti og draga úr verðbólgu. Hann telur að ECB sé nú í því ferli að „fínstilla“ peningastefnuna til að tryggja „mjúka lendingu“ hagkerfisins.

„Þetta gæti krafist smávægilegrar tilraunastarfs,“ sagði Wunsch. Hann bætti við að hann væri „nokkuð sáttur“ við markaðsvæntingar um 2 prósenta vexti fyrir árslok.

Hann útilokar ekki að vextir gætu farið undir 2 prósent ef efnahagsumhverfið, ytri áföll og verðþrýstingur gefa tilefni til þess.