Annar áfangi Orkureitsins er nú kominn í sölu en um er að ræða 133 nýjar íbúðir í svokölluðu D-húsi, sem rís á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar. Íbúðirnar eru sagðar bjóða upp á gott útsýni yfir Laugardalinn og Faxaflóa.

Síðasta vor fóru 68 íbúðir í sölu í fyrsta áfanga reitsins og samkvæmt eiganda og verktaka Orkureitsins hafa 40 af þeim þegar selst.

Hilmar Ágústsson, framkvæmdastjóri SAFÍR bygginga, segir að sala hafi farið vel af stað og að staðsetning íbúðanna hafi haft mikið að segja.

„Það er eins og fólk sé að átta sig á því hversu vel heppnaður Orkureiturinn er. Staðsetning og góð tenging við Laugardalinn þar sem er fallegt útivistarsvæði skiptir fólk líka miklu máli. Þá eru nóg af bílastæðum í boði fyrir íbúa í bílastæðahúsum neðanjarðar, sem er ekki sjálfsagður hlutur í dag.“

Hann bætir við að boðið verði einnig upp á ýmsa þjónustu á jarðhæðum reitsins eins og veitingarekstur og kaffihús. Íbúar á D-reit munu þar að auki hafa aðgang að líkamsrækt á jarðhæð.