Af þeim ríflega 2.000 íbúðum sem voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu í lok maí voru 85% þeirra verðlagðar á yfir 60 milljónir króna. Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS segir að lítið framboð íbúða á undir 60 milljónum sé eitt merki um að erfitt sé fyrir fyrstu kaupendur að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn.

Af þeim ríflega 2.000 íbúðum sem voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu í lok maí voru 85% þeirra verðlagðar á yfir 60 milljónir króna. Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS segir að lítið framboð íbúða á undir 60 milljónum sé eitt merki um að erfitt sé fyrir fyrstu kaupendur að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn.

„Þrátt fyrir aukið framboð íbúða hefur íbúðum sem í boði eru verðlagðar á undir 60 milljónum á höfuðborgarsvæðinu fækkað um 40 síðastliðið ár. Hlutdeild slíkra íbúða á svæðinu er innan við 15% af heildarframboði íbúða,“ segir í skýrslunni.

Meðalverð íbúða sem gengu kaupum og sölum í aprílmánuði var um 81 milljón króna á höfuðborgarsvæðinu, bæði á nýju og eldra íbúðarhúsnæði. Meðalkaupverð í nágrenni höfuðborgarsvæðis nam um 66 miljónum króna í apríl.

Meðalsöluverð á fermetra var hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 844 þúsund á nýju húsnæði og 767 þúsund á öðru húsnæði í aprílmánuði.

Í skýrslunni segir að mestur kaupþrýstingur um þessar mundir sé á fjölbýlisíbúðum á höfuðborgarsvæðinu en í aprílmánuði seldust 23,2% allra slíkra íbúða á yfirverði.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.

Kaupsamningum fjölgar en framboð enn stöðugt

Kaupsamningar á íbúðamarkaði í apríl voru um 1.400 talsins samanborið við 1.139 í marsmánuði.

„Gögn um fasteignaauglýsingar benda til þess að umsvif á fasteignamarkaði hafi haldist áfram mikil í maí, þar sem margar íbúðir voru teknar úr birtingu af auglýsingasíðum fasteigna,“ segir í skýrslunni en 1.228 fasteignir teknar úr sölu í maí. „Fleiri íbúðir voru teknar af sölu í maí samanborið við apríl í öllum landshlutum.“

Í skýrslunni segir að þrátt fyrir að kaupsamningum um íbúðarhúsnæði hafi fjölgað hafi framboð íbúða haldist nokkuð stöðugt.

Um 3.350 íbúðir voru til sölu á landinu öllu í lok maí og þar af voru um 2.000 þeirra á höfuðborgarsvæðinu. HMS bendir á að fyrir ári voru þær tæplega 300 færri og skýrist fjölgun þeirra á tímabilinu af fleiri nýjum íbúðum sem nú eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutdeild nýrra íbúða er 35,6% á landinu öllu og um 41,9% á höfuðborgarsvæðinu.