„Við höfum verið á þeirri vegferð síðustu ár að byggja upp Lyfju sem meira en bara apótek. Við vinnum markvisst að því að veita þeim sem þurfa á lyfjum að halda framúrskarandi þjónustu en við erum líka að horfa til þess að fólk geti komið til okkar í leit að fyrirbyggjandi lausnum eða annarri heilsutengdri þjónustu,“ segir Hildur Þórisdóttir, sem tók við sem mannauðsstjóri Festi á dögunum, en Lyfja kom formlega inn í samstæðu Festi í byrjun júlí. Áður en Hildur tók við núverandi stöðu var hún starfandi forstjóri Lyfju í rúmt ár.

Lyfja hefur ráðist í ýmis nýsköpunarverkefni á sviði heilbrigðis og vellíðunar sem leggja grunn að frekari vexti, til að mynda með Lyfju Heyrn og Lyfju appið.

„Við sjáum tækifæri í að koma sterkari inn í fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu, sem getur létt á heilbrigðiskerfinu okkar og bætt aðgengi landsmanna að heilsutengdri þjónustu,“ segir Hildur.

Hópurinn sem nýti sér Lyfja appið fari sífellt stækkandi og stefnt er á að útvíkka þá þjónustu og bæta enn frekar vöru- og þjónustuframboð. Lyfja Heyrn hafi einnig verið í vexti og nýverið var byrjað að bjóða upp á heyrnamælingar á landsbyggðinni. Þrátt fyrir ýmis tækifæri í rekstrinum blasi þó við ákveðnar áskoranir.

„Fyrir utan rekstrarumhverfið almennt, hátt vaxtastig og verðbólgu, þá er það alltaf áskorun að ryðja nýjar brautir og regluverkið er oft gamalt og ekki í takt við þá stafrænu þróun sem er í gangi,“ segir Hildur.

„Heilbrigðisþjónusta er í eðli sínu íhaldssöm og við skiljum vel kröfur um öryggi og fagmennsku. Við teljum þó mikilvægt að ná samtali um regluverkið til að tryggja að það sé í takt við kröfur nútímans og þau tækifæri sem felast í stafrænni þróun og einkaframtakinu.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.