Meira en helmingur breskra fyrirtækja segist þurfa að hækka verðlag á næstu þremur mánuðum vegna hækkandi kostnaðar. Þetta kemur fram í könnun frá breska viðskiptaráðinu þar sem rúmlega fimm þúsund fyrirtæki voru tekin fyrir.
Þar segir að traust fyrirtækja til yfirvalda hafi ekki verið minna í tvö ár en fyrirtæki segjast hafa áhyggjur af aukinni skattbyrði frá næstu fjárlögum.
Verðbólga í Bretlandi hefur lækkað verulega frá árinu 2022, þegar hún stóð sem hæst, en hækkaði hins vegar á ný bæði í október og nóvember. Styrkleiki breska hagkerfisins hefur einnig verið mikið í umræðunni eftir birtingu hagvaxtartalna rétt fyrir jól.
Samkvæmt nýjustu gögnum var lítill sem enginn vöxtur milli júlí og september og dróst síðan hagkerfið aftur saman í október.
Skýrsla frá KPMG spáir því að vöxtur muni aukast á þessu ári og að hagkerfið muni vaxa um 1,7% á þessu ári samanborið við 0,8% árið 2024. KPMG varar hins vegar við því að hagvöxtur gæti kostað meiri verðbólgu þar sem fyrirtæki færa hækkandi kostnað yfir á neytendur.