Árið 2022 var líflegt á fjármálamarkaði sem og óskráða markaðnum. Ellert Arnarson, forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans segist bjartsýnn á komandi tíma, þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum.

„Maður leyfir sér að vera bjartsýnn þrátt fyrir nokkra óvissu um þessar mundir, sérstaklega með verðbólguna og kjaramálin. Maður finnur fyrir því að það er meiri órói á markaðnum nú en í fyrra. Ísland er hins vegar að koma nokkuð sterkt inn í þetta óvissuástand. Heimilin eru með hátt sparnaðarstig og því með ákveðið bolmagn til að taka á sig vaxtahækkanirnar. Þar að auki hefur orkukrísan sem hófst í Evrópu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu ekki átt sér stað hér á landi, þar sem við erum nettó útflytjandi á orku.“

Gengi bréfa Alvotech hefur hækkað um 50% frá skráningu á First North, þegar þessi grein er skrifuð.

Ný tegund fyrirtækja á markað

Eitt af stærri verkefnum ráðgjafarinnar var ráðgjöf við hlutafjáraukningu og skráningu líftæknifyrirtækisins Alvotech á markað. Félagið varð þar með það eina sem var tvískráð á markað bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum, á First North og Nasdaq New York.

„Við höfum átt í árangursríku samstarfi við Alvotech undanfarin misseri. Auk þess að hafa aðstoðað við hlutafjáraukningu og skráningu félagsins veittum við félaginu ráðgjöf við sölu og útgáfu breytanlegra skuldabréfa að fjárhæð 70 milljónir bandaríkjadala síðastliðinn desember. Núna síðast í janúar vorum við annar af söluráðgjöfum félagsins í 19,5 milljarða króna sölu á hlutafé.“

Ellert segir afar skemmtilegt að vera hluti af vegferð Alvotech, sem er nú orðið verðmætasta félagið á hlutabréfamarkaði. „Alvotech er nýtt félag á markaði sem starfar í lyfjageiranum, og félagið er í miklum vaxtarfasa.“

Nánar er rætt við Ellert í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.