Í stefnu­skrá Við­reisnar fyrir þing­kosningarnar haustið 2021 lagði flokkurinn til að Ís­land myndi sækjast eftir tví­hliða samningi við Seðla­banka Evrópu um sam­starf í gjald­eyris­málum til að binda gengi krónunnar við evru, sem fyrsta skref að upp­töku evru.

Spurður um á­herslur Við­reisnar í gjald­eyris­málum að þessu sinni segir Daði Már Kristófers­son, vara­for­maður Við­reisnar, að aðal­á­hersla flokksins sé að tala fyrir bættum rekstri og fjár­málum hins opin­bera.

„Það er miklu meira aðkallandi mál að ná tökum á rekstri hins opinbera og tryggja þannig stöðugleika,“ segir Daði í samtali við Viðskiptablaðið.

„Flokkurinn hefur ekki skipt um stefnu en megináherslan er að ná fram aga í opinberum rekstri sem því miður hefur ekki verið á tíma núverandi ríkisstjórnarinnar. Það hefur hvert hallaárið rekið annað.“

Daði áréttar að ríkisskuldir séu í sjálfu sér ekki neikvæðar. Það sé hins vegar slæmt ef skuldir ríkissjóðs aukist óháð stöðu hagkerfisins og ef fjárfestingar hins opinbera styðja ekki framleiðniaukningu til lengri tíma.

„Þá kemur náttúrulega að því að það verður að skerða þjónustu ríkisins vegna vaxtagjalda. Við erum að upplifa það nú þegar.“

Verður að vera verkefni númer eitt

Hann furðar sig á því að ríkið sé enn rekið með viðvarandi halla þrátt fyrir mikinn hagvöxt á síðustu misserum. Íslensk stjórnvöld hafi verið mun lengur en aðrar þjóðir að draga úr útgjöldum eftir að Covid-faraldrinum lauk. Daði segir þetta merki um slæma hagstjórn sem þurfi að breyta.

„Ríkið ætti að reyna að nýta styrk sinn til að reyna að draga úr sveiflum í hagkerfinu, ekki auka þær. Þannig á ekki ráðast í framkvæmdir þegar það er uppsveifla í hagkerfinu, heldur frekar þegar það er niðursveifla. Það hefur ekki verið gert á Íslandi“

Ertu þá að segja að þið ætlið ekki að leggja jafn mikla áherslu á evrumálin fyrir kosningar?

„Það eru ýmsar leiðir mögulegar í gjaldeyrismálum. Sú augljósasta eru auðvitað að ganga inn í Evrópusambandið en til þess þarf einhver ár. Það eru til aðrar leiðir og útfærslur á fyrirkomulagi gjaldmiðlamála, sem hver og ein hefur sína kosti og galla.

Til skemmri tíma litið skiptir hins vegar langsamlega mestu máli að ná tökum á ríkisútgjöldum. Það er líka forsenda fyrir því að við gætum ráðist í breytingar á fyrirkomulagi gjaldeyrismála. Það verður því að vera verkefni númer eitt. Engin önnur lausn getur komið þar á undan.“

Daði segir að sú hugmynd um fastgengi sem Viðreisn kynnti í aðdraganda síðustu kosninga sé áfram einn af þeim möguleikum sem flokkurinn telur koma til greina til lengri tíma. Eftir sem áður þurfi þó fyrst að ná tökum á stjórn ríkisfjármála.

Stefnir ekki á þing

Daði tilkynnti á föstudaginn að hann ætli að sækjast eftir heiðurssæti á lista flokksins í Reykjavík.

Hann sagði persónulegar ástæður liggja að baki ákvörðun hans um að sækjast ekki eftir sæti á toppi listans. Hann sé í starfi sem brennur fyrir og þar sjái hann framtíð sína.