Fjárfestar vestanhafs eru byrjaðir að missa trú á að fjármálamarkaðir geti haft áhrif á stefnu Donalds Trumps, samkvæmt Financial Times.
Í fyrri forsetatíð Trumps dró hann oftar en ekki í land ef hlutabréfamarkaðir brugðust illa við hugmyndum hans.
Nú er staðan þó önnur en S&P 500-vísitalan hefur lækkað um 8% á síðustu þremur vikum og er Trump hvergi af baki dottinn í tollastríði sínu.
Sérfræðingar sem FT ræddi við telja að umburðarlyndi forsetans gagnvart efnahagstengdri óvissu sé meira en áður var talið og að því sé ólíklegt að hann dragi úr tollum eða niðurskurði ríkisútgjalda þrátt fyrir neikvæð viðbrögð markaða.
Fjárfestingabankar og fagjárfestar höfðu lengi gert ráð fyrir að Trump myndi láta undan þrýstingi ef hlutabréfamarkaðir brygðust illa við.
Margir höfðu reitt sig á svokallaðan „Trump- sölurétt“ ( e. Trump put), sem vísar til þeirrar hugmyndar að forsetinn myndi bregðast við markaðslækkunum með aðgerðum sem styðja við hlutabréfaverð.
Miklar lækkanir og vaxandi óvissa
Nasdaq Composite-vísitalan hefur nú lækkað um meira en 13% frá hæstu gildum sínum í desember.
Samhliða þessu hefur VIX-vísitalan rokið upp úr 12 í 27, sem er vel yfir langtímameðaltali hennar og bendir til þess að markaðir séu í mikilli spennu.
VIX-vísitalan mælir vænt flökt S&P 500 samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni og gefur vísbendingu um áhættufælni fjárfesta. Vísitalan hefur hækkað um 70% síðastliðinn mánuð.
Í sögulegu samhengi er VIX-vísitalan enn fremur lág en hún fór um stund í 65 stig þegar titringur á Asíumörkuðum olli vænlegri dýfu á mörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu.
Vísitalan fór upp í 80 stig er Covid-faraldurinn náði hámarki haustið 2020 en hæsta gildi hennar var um 89 stig þegar efnahagshrunið skók heiminn árið 2008.
Stærstu fjárfestingarbankar heims, eins og Goldman Sachs og Morgan Stanley, hafa dregið úr hagvaxtarspám sínum vegna aukinna viðskiptahindrana.
Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines lækkaði einnig afkomuspá sína fyrir fyrsta ársfjórðung í gærkvöldi en félagið væntir þess að tekjur og hagnaður verði minni en spár gerðu ráð fyrir.
Þessar aðstæður gefa vísbendingu um að viðskiptalífið sé að bregðast við áhrifum stefnu Trumps en á sama tíma virðast stjórnvöld ekki hafa miklar áhyggjur af markaðinum.
Markaðurinn í afeitrun
Stjórnvöld í Washington hafa sent skýr skilaboð um að þau muni ekki láta fjármálamarkaðinn stýra efnahagsstefnunni.
Fjármálaráðherrann, Scott Bessent, sagði að „enginn söluréttur sé til staðar“ og að markaðurinn verði að aðlagast minni ríkisútgjöldum. Hann bætti við að efnahagslífið hefði orðið háð opinberum fjárútlátum og þurfi nú að fara í gegnum „afeitrunartímabil“.
Barry Bannister, hlutabréfagreinandi hjá Stifel, segir að stjórnin hafi markað sér stefnu um stórfellda endurskipulagningu efnahagskerfisins á fyrsta ári kjörtímabilsins.
Þetta gæti þó leitt til hægari hagvaxtar og aukinnar verðbólgu, sem þýðir að bandarísk hlutabréf gætu lent í svokallaðri „klemmu“ þar sem bæði hagnaður fyrirtækja og verðmatið á hlutabréfum lækka samtímis.
„Stóra spurningin er hvort Trump sé tilbúinn að þola verulegt efnahagstjón til að koma sínum stefnumálum í framkvæmd,“ segir Shep Perkins, fjárfestingastjóri hjá Putnam Investments.
Þróunin á næstu vikum mun gefa til kynna hvort markaðir hafi metið Trump rétt eða hvort stjórnin neyðist til að skipta um stefnu ef ástandið versnar enn frekar.