Megnið af húsnæðisstuðningi hins opinbera er á leigumarkaði þrátt fyrir að langflestir landsmenn vilja búa í eigin húsnæði. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI) vakti athygli á þessu á fundi HMS í gær.

Megnið af húsnæðisstuðningi hins opinbera er á leigumarkaði þrátt fyrir að langflestir landsmenn vilja búa í eigin húsnæði. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI) vakti athygli á þessu á fundi HMS í gær.

Sigurður fór yfir niðurstöður nýlegrar leigukönnunar HMS sem sýndi að aðeins 8% af þeim sem leigja vilja vera á leigumarkaði. Umrætt hlutfall hefur lækkað jafnt og þétt undanfarin ár, sem kann að skýrast af miklum hækkunum á húsnæðisverði.

„Leigumarkaðurinn er um 20% af markaðnum sirka, þannig að þetta þýðir að innan við 2% heimila vilja vera á leigumarkaði ef við tökum heildina,“ sagði Sigurður.

Mynd tekin úr kynningu Sigurðar Hannessonar á fundi HMS í gær.

Samkvæmt gögnum frá árinu 2022 skiptist íbúðamarkaðurinn hér á landi þannig að um 79% íbúða falla undir séreign og 21% falla undir leigumarkaðinn en þar af eru leiguíbúðir á vegum einkaaðila um 15% og 6% á vegum opinberra aðila.

Sigurður vísaði í kjölfarið í gögn HMS sem sýna að 56% af hússnæðisstuðningi hins opinbera er á leigumarkaðnum, þar af 41% á eftirspurnarhliðinni og 15% á framboðshliðinni.

Í tilviki séreignarhliðar íbúðamarkaðarins þá er 42% af heildarstuðningsaðgerðum hins opinbera á eftirspurnarhliðinni en aðeins 2% á framboðshliðinni.

„Rót vandans á húsnæðismarkaði liggur í framboðshliðinni. Við getum hvert og eitt okkar hér inni dregið okkar ályktanir um stefnumörkun stjórnvalda í húsnæðismálum,“ sagði Sigurður.

Á þessari glæru má annars vegar sjá grófa skiptingu íbúðamarkaðarins árið 2022 og hins vegar flokkun á húsnæðisstuðningi hins opinbera.