Samkvæmt tilkynningu frá HMS seldust um 64% íbúða á höfuðborgarsvæðinu í nóvember síðastliðnum undir ásettu verði, en einungis 14% íbúða yfir ásettu verði.
Hlutfall íbúða sem selst hefur yfir ásettu verði virðist einnig hafa tekið viðsnúning frá apríl 2022, þegar eftirspurnarþrýstingur var mikill á húsnæðismarkaði. Í þeim mánuði seldist meirihluti íbúða í flestum póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði.
„Síðastliðinn nóvember hafði hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði svo lækkað niður í 13,6% á höfuðborgarsvæðinu, en íbúðir í póstnúmerum 107, 101 og 111 hafa gengið kaupum yfir ásettu verði í um og yfir 20% tilvika síðastliðna þrjá mánuði,“ segir í greiningu.
Í nágrenni höfuðborgarsvæðis hafa þá 6,8% íbúða gengið kaupum og sölum yfir ásettu verði síðastliðna þrjá mánuði. Íbúðir í Reykjanesbæ hafa í yfir 15% tilvika gengið kaupum yfir ásettu verði á umræddu tímabili en annars staðar á landinu er hlutfallið ekki nema 8,7%.