Samkvæmt nýrri könnun frá Maskínu er rúmlega helmingur Íslendinga, eða 51,3%, andvígur hvalveiðum. Niðurstöðurnar sýna töluverða breytingu frá árinu 2019 þegar 42% sögðust vera á móti hvalveiðum.
Andstaðan er meiri meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins, eða 57%, en mikil hækkun hefur einnig orðið á andstöðu út á landi. Árið 2019 sögðust 27% íbúar landsbyggðarinnar vera mótfallnir hvalveiðum en sú tala hefur nú hækkað upp í 41%.
Rúmlega 60% íbúa höfuðborgarsvæðisins og 43% íbúa landsbyggðarinnar telja að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi. Þær tölur hafa hins vegar lítið breyst frá árinu 2019.
Hvalveiðar Íslendinga hafa verið mikið í brennidepli undanfarnar vikur eftir að skýrsla frá Matvælastofnun var birt um veiðar á langreyðum.
Samkvæmt skýrslunni hafa 148 hvalir verið veiddir síðan síðasta veiðitímabilið hófst í júní 2022. Af þeim hvölum sem veiddir voru, þurfti að skjóta 36 þeirra oftar en einu sinni. Skýrslan greindi einnig frá því að fimm hvalir voru skotnir þrisvar og fjórir voru skotnir fjórum sinnum. Einum hval með skutul í bakinu var meðal annars veitt eftirför í 5 klukkutíma án árangurs.