Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur enn ekki tekið beiðni Félagsbústaða um heimild til að hækka leiguverð um 6,5% umfram verðlagsbreytingar til afgreiðslu. Stjórnendur Félagsbústaða hafa óskað eftir slíkri hækkun í meira en eitt og hálft ár til að ná markmiðum um sjálfbæran rekstur.

Stjórn Félagsbústaða kallaði í september formlega eftir því að Velferðarráð Reykjavíkurborgar tæki afstöðu til tillögu um 6,5% hækkun leiguverðs umfram vísitölu sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun félagsins fyrir árin 2025-2029.

Stjórnin áréttaði að án slíkrar hækkunar sé viðbúið að hægja muni enn frekar á vexti félagsins og uppbyggingu félagslegs húsnæðis á sama tíma og erfitt geti reynst að sinna viðhaldi á eignum félagsins.

„Málið hrakhraufast um rangala borgarkerfisins án niðurstöðu“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður Félagsbústaða, vekur athygli á því í bókun í fundargerð stjórnarfundar frá 9. janúar síðastliðnum að ekki hafi enn orðið af umræddri hækkun leiguverðs.

Borgarstjórn hafi hins vegar samþykkt í desember fjárhagsáætlun félagsins fyrir árið 2025, þar sem aftur var gert ráð fyrir 6,5% hækkun á leigu umfram verðlagsbreytingar. Jafnframt hafi fjárhagsáætlun Félagsbústaða 2024, sem samþykkt var án athugasemda af meirihluta borgarstjórnar, kveðið á um slíka hækkun. í því skyni að styrkja tekjugrunn félagsins.

„Hefur málið hrakhraufast um rangala borgarkerfisins án niðurstöðu árum saman, að því er virðist vegna ósamkomulags innan meirihluta borgarstjórnar. Brýnt er að höggvið verði á hnútinn sem fyrst í því skyni að tryggja fjármagnsskipan Félagsbústaða,“ segir Kjartan.

„Fjármagnsskipan Félagsbústaða hefur verið ósjálfbær árum saman. Afar brýnt er að styrkja tekjugrundvöll félagsins til framtíðar sem fyrst í því skyni að tryggja sjálfbærni þess, eins og kveðið er á um í eigendastefnu“.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að svo virðist sem ósamkomulag sé innan meirihluta borgarstjórnar um málið.
© Eggert Jóhannesson (M mynd/Eggert Jóhannesson)

Hafna því að birta skýrslu um fjármál Félagsbústaða

Stjórnendur Félagsbústaða óskuðu sumarið 2023 eftir því við velferðarráð að fá heimild til að hækka leiguverð um 1,1% umfram verðlag en sú tillaga hlaut ekki brautargengi.

Í mars 2024 lýstu stjórn og stjórnendur Félagsbústaða yfir áhyggjum af fjárhagsstöðu félagsins í ársreikningi og furðuðu sig á að velferðarráð hefði ekki samþykkt tillögu um leiguverðshækkun. Þáverandi stjórnarformaður Félagsbústaða, Haraldur Flosi Tryggvason, greindi í kjölfarið frá því að hækkunarþörfin væri komin upp í 6,5%.

Dagur B. Eggertsson, þáverandi borgarstjóri, skipaði vinnuhóp í október 2023 sem falið var að greina stöðu Félagsbústaða með tilliti til sjálfbærni og reksturs. Viðskiptablaðið kallaði í haust eftir að fá afrit af skýrslunni, sem hópurinn skilaði af sér í mars 2024, frá borginni en var hafnað þar sem hún var trúnaðarmerkt.

Í svari frá samskiptastjóra á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í október var synjunin rökkstudd út frá því að Félagsbústaðir séu félag á markaði (með skráð skuldabréf) og því sé skýrslan trúnaðarmál. Vinna hópsins hafi verið hugsuð sem grundvöllur að frekari greiningu innan borgarkerfisins. Annað gildi þó um mögulegar tillögur sem kunna að vera lagðar fram í framhaldi af þessu rýni.

Skýrslan var lögð fram trúnaðarmerkt í Velferðarráði þann 8. nóvember síðastliðinn. Í fundargerð Velferðarráðs segir að trúnaðar ríki um málið þar til skýrslan hafi verið lögð fram í borgarráði. Skýrslan hefur ekki verið lögð fyrir borgarráð eftir því sem Viðskipablaðið kemst næst.