Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu í vikunni fram tillögu þess efnis að borgarstjóra yrði falið að falla frá arðgreiðslukröfu á Orkuveitusamstæðuna og hafna arðgreiðslutillögu stjórnar OR – sem nemur sex milljörðum króna - á aðalfundi samstæðunnar sem fer fram í næstu viku.

Tillögunni var aftur á móti hafnað af meirihlutanum. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir það í sjálfu sér ekki hafa komið þeim á óvart, enda hafi borgin á síðustu árum treyst á arðgreiðslur úr innviðafyrirtækjum til þess að geta staðið undir grunnþjónustu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu í vikunni fram tillögu þess efnis að borgarstjóra yrði falið að falla frá arðgreiðslukröfu á Orkuveitusamstæðuna og hafna arðgreiðslutillögu stjórnar OR – sem nemur sex milljörðum króna - á aðalfundi samstæðunnar sem fer fram í næstu viku.

Tillögunni var aftur á móti hafnað af meirihlutanum. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir það í sjálfu sér ekki hafa komið þeim á óvart, enda hafi borgin á síðustu árum treyst á arðgreiðslur úr innviðafyrirtækjum til þess að geta staðið undir grunnþjónustu.

„Við höfum alltaf talið eðlilegra að ráðist sé á rekstrarvandann hjá borginni, enda fjölmörg tækifæri til. Í eðlilegu umhverfi ættu sívaxandi skatttekjur borgarinnar að geta staðið undir grunnþjónustu við íbúana, en það hefur ekki verið tilfellið undanfarin ár. Í stað þess að ráðast á vaxtandi rekstrarkostnað borgarinnar hefur meirhlutinn kosið að mergsjúga innviðafyrirtækin og gert arðgreiðslukröfu á þau, langt umfram það sem eðlilegt má telja,“ segir Hildur.

„Fyrrum borgarstjóri, og núverandi formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson, hefur reynt að verjast þessari umfjöllun okkar Sjálfstæðismanna og borið hana saman við arðgreiðslur frá Landsvirkjun en það er auðvitað með engu samanburðarhæft. Landsvirkjun hagnast að miklu á orkusölu til stórnotenda og eðlilegt að landsmenn njóti arðs af því, en Orkuveitan hefur fyrst og fremst það hlutverk að tryggja borgarbúum aðgang að mikilvægum orku- og veituinnviðum, þannig það er auðvitað ólíku saman að jafna. Ef svigrúm skapast í rekstri Orkuveitunnar er eðlilegra að lækka gjaldskrár á íbúa og tryggja eðlilegt viðhald og uppbyggingu þeirra innviða sem reynast nauðsynlegir starfseminni.“

Kallar á gríðarlega skuldsetningu

Það sé þó staðreynd að ákveðin orkukrísa sem blasi við auk þess sem veitukerfin eru undir miklu álagi.

„Orkuveitan er fullmeðvituð um þetta og er með fyrirhugaða gríðarlega fjárfestingaráætlun til ársins 2028, sem nemur 229 milljörðum. Þessar áætlanir kalla á gríðarlega skuldsetningu. Með hliðsjón af fyrirhuguðum fjárfestingum, krefjandi kjörum á fjármagnsmörkuðum og versnandi afkomu Orkuveitunnar teljum við eðlilegra að falla frá arðgreiðslukröfu í ár, treysta frekar reksturinn og þessar mikilvægu undirstöður samfélagsins sem Orkuveitan stendur fyrir.“

Ársreikningur borgarinnar er nú í vinnslu en að sögn Hildar mun þar koma ljós hversu stórt gatið er í raun. Meirihlutinn ákveði að leysa það með aðgerðum á borð við þá að mergsjúga innviðafyrirtækin.

„Það eru mörg tækifæri til að hagræða í rekstrinum og skera niður. Þá er löngu tímabært að kjarna rekstur borgarinnar og setja fókus á grunnþjónustuna, færa verkefni sem aðrir geta séð um til einkaaðila. Tækifærin hafa verið alltumlykjandi en þau hafa verið vannýtt. Þess í stað er leitað plástralausna eins og þeirra að blóðmjólka innviðafyrirtækin en við erum mótfallin því,“ segir Hildur.

Ekki tilefni til að greiða svo ríflegan arð

Í umræddri tillögu var bent á fjárhæðin í arðgreiðslutillögunni nær öllum hagnaði samstæðunnar fyrir síðasta rekstrarár en hagnaður Orkuveitunnar fyrir árið 2023 nam 6,4 milljörðum. Tillaga stjórnar OR verði að teljast óábyrg á tímum orkuskorts og mikils álags á orkuinnviði landsins, og ekki síður með hliðsjón af álagi á veitukerfi og aðra innviði.

„Hvorki afkoma OR samstæðunnar né heldur kjör á fjármagnsmörkuðum gefa tilefni til að greiða svo ríflegan arð til eigenda. Ekki síst með hliðsjón af þeirri gríðarlegu innviðauppbyggingu sem fyrirhuguð er. Jafnvel þó eigendur OR vilji njóta ávöxtunar af því fjármagni sem bundið er í rekstri samstæðunnar er eðlilegt að þau sjónarmið víki fyrir þeim mikilvægu hagsmunum sem borgarbúar eiga undir traustum innviðum samfélagsins,“ sagði í tillögunni.