Íslenska fjártæknifyrirtækið Meniga, sem hefur þróað lausnir á sviði heimilisfjármála og vinnur með fjölda alþjóðlegra banka, hefur tilkynnt um 15 milljóna evru fjármögnun, sem samsvarar um 2,2 milljörðum íslenskra króna, í D- fjármögnunarlotu. Greint er frá fjármögnuninni í tilkynningu.

Meðal þátttakaenda í fjármögnungarlotunni voru stórir evrópskir bankar á borð við BPCE og Crédito Agrícola. Þá kemur Omega ehf., fjárfestingafélag í eigu Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar, inn í hluthafahóp Meniga. Omega var m.a. stærsti hluthafi Kerecis fyrir 180 milljarða króna sölu fyrirtækisins til Coloplast í sumar.

Margir af núverandi hluthöfum Meniga tóku einnig þátt í fjármögnuninni. Meðal stærstu hluthafa Meniga eru erlendu fjárfestingarsjóðirnir Velocity Capital og Industrifonden ásamt íslensku sjóðunum Frumtaki I og Kjölfestu.

Heildar fjárfesting í Meniga til þessa nemur nú um 55 milljónum evra eða sem nemur tæplega 8,3 milljörðum króna á gengi dagsins.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun var greint frá því að von væri á tíðindum um nýja fjármögnun hjá Meniga. Rætt var ítarlega við Raj Soni, nýjan forstjóra, og Ásgeir Örn Ásgeirsson, einn stofnenda og framkvæmdastjóra vaxtar hjá Meniga, um starfsemi félagsins á síðustu árum - þar á meðal erfiðleika í kjölfar þess að fyrri vaxtaráform gengu ekki eftir – og nýja vaxtarstefnu félagsins.

Greiða upp skuldir og sækja fram á nýrri stefnu

Meniga segir að hluti af fjármögnuninni verði nýttur til að greiða upp núverandi skuldir og að fyrirtækið verði í kjölfarið nánast skuldlaust. Auk þess verði fjármögnunin nýtt til að styðja við hina nýja vaxtarstefnu Meniga.

Nýja stefnan felur í sér áherslu á að þróa enn frekar kjarnavörur sem snúa að gagnaauðgun og virðisaukandi persónusniðnum skilaboðum í fjármálaþjónustu. Þar að auki felur ný stefna í sér aukna áherslu á greiðslulausnir fyrir banka sem byggja á hinu svokallaða opna bankakerfi.

Ný stefna Meniga - sem mörkuð var í kjölfarið af innkomu framkvæmdastjórans Raj Soni síðasta sumar - leggur upp með einföldun á vöruframboði fyrirtækisins, útvíkkun viðskiptavina þvert á fjármálastarfsemi en ekki bundin við banka og sókn á ný tækifæri á vaxandi mörkuðum í Miðausturlöndum, Suður-Ameríku og Asíu.

Jafnframt segist Meniga stefna að opnun nýrra rekstrareininga með áherslu á vöxt og þjónustu við viðskiptavini í framhaldi af innleiðingu á vörum Meniga.

„Omega hefur gengið vel að finna og fjárfesta í góðum verkefnum og vaxtartækifærum. Við hlökkum til að vinna með Meniga að því að ná vaxtarmarkmiðum sínum sem byggja á sannreyndum vörum og þjónustu, sterku neti alþjóðlegra viðskiptavina og reynslumiklu stjórnendateymi,“ segir Sigþór Sigmarsson, framkvæmdastjóri Omega.

„Við erum spennt fyrir áframhaldandi samstarfi okkar við Meniga sem í dag er undirstaða stafrænnar bankaþjónustu fyrir yfir 10 milljón viðskiptavini okkar og framkalla yfir 100 milljón persónusniðin skilaboð fyrir viðskiptavini okkar á hverju ári. Við hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi áherslum fyrirtækisins á gagnaauðgun og einstaklingsmiðaðar fjárhagsupplýsingar. Þessi þjónusta er bönkum BPCE mjög mikilvæg í skilvirkri nálgun á viðskiptavini og við höfum reynslu af því hversu miklu lykilhlutverki þjónusta Meniga hefur gegnt í velgengni okkar banka,“ segir Emmanuel Puga Pereira, yfirmaður stafrænna lausna hjá Groupe BPCE.

„Fjárfestingar Crédito Agrícola eru miðaðar að nýsköpun í fjártækni sem eru nauðsynlegar stafrænni þróun og framtíð í fjármálaþjónustu. Frá 2019 hefur Meniga verið lykileining fyrir moey!, stafræna bankaþjónustu Credíto Agrícola, sem er aðeins aðgengileg í farsíma. Markmiðið með þessari fjárfestingu er að styrkja langtíma samstarf með Meniga við að byggja upp og innleiða stafræna bankaþjónustu okkar. Þekking og tengslanet Credíto Agrícola í portúgalska frumkvöðlaheiminum mun nýtast Meniga og opna á tækifæri meðal banka bæði innan Portúgal og utan,“ segir Sergio Raposo Frade, stjórnamaður hjá Crédito Agrícola.

Meniga þróar stafrænar bankalausnir á alþjóðamarkaði þar sem yfir 100 milljón viðskiptavinir banka hafa aðgang að vörum fyrirtækisins í fleiri en 30 löndum í Evrópu, Norður- Ameríku, Miðausturlöndum og Asíu. Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru margir alþjóðlegir bankar á þessum svæðum eins og UOB, UniCredit, Groupe BPCE, Credíto Agrícola, Swedbank og Commercial Bank of Dubai.