Ásgerður Þorleifsdóttir, fyrrum formaður Héraðssambands Vestfjarða, segir farir sínar ekki sléttar eftir fund Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra á Ísafirði á dögunum.
Hún segir ljóst að áform ríkisstjórnarinnar, um að setja um 80% virkan tekjuskatt á sjávarútvegsfélögin á landsbyggðinni, muni hafa neikvæð áhrif á íþrótta- og menningarlíf á Vestfjörðum.
„Ég fór á fund með forsætisráðherra sem fullyrti það að veiðigjöld myndu ekki hafa áhrif á samfélagið. Hún fullyrti líka að hún kynni að lesa ársreikninga fyrirtækja og sæi það alveg að fyrirtæki eigi fyrir veiðigjöldum.
Auðvitað er fullt af fólki sem telur best að sem mest renni í ríkissjóð og svo getum við öll reynt að fá alls konar bætur þaðan til að lifa af. Það virðist vera þangað sem við stefnum því það segir sig alveg sjálft að þessi fyrirtæki sem hafa haldið samfélögunum hér uppi á margan hátt munu ekki geta það af sama mætti og áður,“ skrifar Ásgerður í færslu á Facebook.
Hún deilir með færslu sinni mynd af áhrifum skattahækkana ríkisstjórnarinnar á Hraðfrystihúsið-Gunnvör á Vestfjörðum en fyrirtækið er eitt af þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til uppbyggingar í heimabyggð.

Leiðréttingar Skattsins og fyrirhugaðar breytingar atvinnuveganefndar staðfesta að nær allur hagnaður Gunnvarar mun framvegis renna í ríkissjóð.
„Menningarlíf og íþróttalíf sem dæmi munu eiga erfitt uppdráttar og ég óttast líka að samráttur fyrirtækjanna muni skila sér í fækkun starfa, það segir sig algjörlega sjálft.
Ein af þeim „rökum“ sem við fáum að heyra þegar maður lýsir því yfir að maður sé ekki fylgjandi þessu sé að maður sé að gæta hagsmuna sjávarútvegsfyrirtækjanna. Ég starfa vissulega hjá fyrirtæki í eigu HG en þau eru fullfær um að gæta sinna hagsmuna. Ég er að hugsa um samfélagið mitt sem ég hef miklar áhyggjur af,“ skrifar Ásgerður.
Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs á Ísafirði tekur undir með Ásgerði og segir:
„Það er akkúrat þetta sem þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar skilja ekki. Íþróttastarf, bæði afreks- og barna- og unglingastarf, er rekið áfram af styrkjum frá fyrirtækjum eins og HG. Við stærum okkur af öflugu íþróttastarfi hér en þegar styrkjum fækkar þá er þetta nánast ómögulegt dæmi,” skrifar Hafdís.