Hlutabréfaverð Nissan lækkaði um 6% í morgun eftir að næst stærsti hluthafi japanska bílaframleiðandans, Mercedess-Benz, seldi allan 3,8% hlut í félaginu.

Þýski bílaframleiðandinn tilkynnti í gær að lífeyrissjóður starfsmanna sinni myndi selja hlutabréf í Nissan að andvirði 346 milljónir dala eða um 43 milljarða króna.

Mercedes-Benz seldi hlut sinn í Nissan á genginu 341,3 jen á hlut sem samsvarar 5,98% aflætti miðað við dagslokagengi japanska félagsins í gær. Á kauphliðinni var hópur fjárfesta en af þeim var hlutur tíu stærstu um 70%.

Í umfjöllun Reuters segir að lækkun á gengi Nissan í kjölfar sölunnar endurspegli áhyggjur fjárfesta um horfur í rekstri japanska bílaframleiðandans sem býr við krefjandi markaðsumhverfi, m.a. vegna tolla Bandaríkjanna. Þá hefur sala félagsins verið að dragast saman í Bandaríkjunum og Kína, lykilmörkuðum félagsins. Nissan tapaði 535 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi.

Nýr forstjóri Nissan, Ivan Espinosa, sem tók við stöðunni í apríl síðastliðnum vinnur nú að mikilli endurskipulagningu á rekstrinum og stefnir að allt að 3,4 milljarða dala hagræðingaraðgerðum. Félagið stefnir að því að fækka stöðugildum um 20 þúsund á heimsvísuá næstu árum, m.a. með því að loka nokkrum verksmiðjum.

Talsmaður Mercedes-Benz sagði í gær að eignarhluturinn í Nissan, sem var fluttur til lífeyrissjóðs þýska félagsins árið 2016, hafi ekki verið mikilvægur fyrir rekstur þess. Hann sagði að með sölunni hafi félagið verið að hreinsa til eignasafn lífeyrissjóðsins.