Stjörnutorgi í Kringlunni var formlega lokað í síðasta mánuði þegar allri þriðju hæðinni var breytt í Kúmen, sem verður svæði veitinga, upplifunar og skemmtunar. Við það tilefni bauð Kringlan merki Stjörnutorgs á uppboði og var allur ágóði ánafnaður pakkasöfnun Kringlunnar til styrktar Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands.

Það var fyrirtækið Tæknivörur sem tryggði sér skiltið og mun færa íþróttafélagi Stjörnunnar í Garðabæ. Þar verður merkið sett upp á torgi Stjörnumanna. Stjörnutorg mun því lifa áfram á nýjum stað.

Upphæðin, 200.000 krónur, rennur óskipt í pakkasöfnunina. Það voru jólaálfar Kringlunnar ásamt markaðsstjóra Kringlunnar, Baldvinu Snælaugsdóttur, sem tóku við styrknum og afhentu um leið skiltið góða.

Pakkasöfnun um 30% minni en í fyrra

Pakkasöfnun Kringlunnar fer þannig fram að viðskiptavinir eru hvattir til að kaupa eina aukagjöf og setja hana í söfnunina við jólatréð í Kringlunni. Eins er hægt að styrkja söfnun með framlagi á kringlan.is. Jólaálfarnir kaupa gjafar fyrir börnin fyrir allt sem safnast á kringlan.is.

Pakkasöfnunin hófst í byrjun desember og hafa margir lagt henni lið. Að sögn Baldvinu er söfnun þó töluvert dræmari en í fyrra eða um 30% minni. Það sé áhyggjuefni þar sem síst færri fjölskyldur reiða sig á aðstoð hjálparsamtaka um þessi jól.