Í mánaðarlegri skýrslu HMS segir að minna framboð íbúða sé eitt stærsta merkið um viðsnúning á fasteignamarkaði. Í sumar hafi framboð íbúða farið minnkandi út júlímánuð, þvert á væntingar, úr 800 í 700, en í ágúst hafi það hins vegar aukist hratt, úr 700 í 905 á aðeins 20 dögum. Aftur á móti er tekið fram í skýrslunni að helstu mælikvarðar um fasteignamarkaðinn séu ekki ótvíræðir, en líklega séu komin fram merki um kólnun á fasteignamarkaði.
Fram kemur að útlit sé fyrir því að fasteignamarkaðurinn sé farinn að kólna sem megi rekja til vaxtahækkana Seðlabankans í júní og júlí ásamt strangari lánaskilyrðum sem bankinn setti í sumar. Þá áréttar HMS að varast beri að lesa of mikið í breytingar á milli einstakra mánaða, sé viðsnúningurinn afgerandi muni skýrari merki koma fram á næstu 1-2 mánuðum.
Vísitala íbúðaverðs hafi hækkað um 1,1% á milli mánaða, en á undanförnum þremur mánuðum hafi hafi vísitalan hækkað um 6,4% og 15,5% síðasta hálfa árið. Einnig kemur fram að íbúðir í fjölbýli hafi einungis hækkað um 0,5% á milli mánaða sem sé töluvert lægra en síðustu 5 mánuðina á undan þar sem hækkunin var 2,4-3,2% á milli mánaða.