Nú þegar árinu 2022 er senn að ljúka er tilvalið að líta yfir þær erlendu fréttir sem vöktu mesta athygli lesenda Viðskiptablaðsins. Hér eru þær fréttir sem voru í sætum 6 til 10 yfir mest lesnu erlendu fréttir ársins.
6. Eignir Karls Bretaprins voru verulegar
Eignir Karls III Bretlandskonungs voru metnar á um 75 milljónir punda, eða um 13 milljarða króna, áður en móðir hans Elísabet lést í september síðastliðnum.
7. Gengi rúblunnar ekki hærra í sjö ár
Í sumar náði gengi rúblunnar gagnvart Bandaríkjadollaranum sínu hæsta stigi frá árinu 2015. Styrking rúblunnar mátti m.a. rekja til hrávöruútflutnings Rússa, samdrætti í innflutningi og banni stjórnvalda við því að heimili landsins tækju út gjaldeyrissparnað sinn. Gengi rúblunnar veiktist aftur þegar líða tók á árið.
8. Allt að 300 milljarðar gufað upp hjá FTX
Fall rafmyntakauphallarinnar FTX var ein af stærstu fréttum ársins. Skömmu eftir að FTX sótti um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum greindu fjölmiðlar frá því að í það minnsta einn milljarður dala af innstæðum viðskiptavina virtist hafa gufað upp.
9. Rússar segja skilið við Airbus og Boeing
Rússneski fluggeirinn hyggst hætta viðskiptum við flugvélaframleiðendurna Boeing og Airbus og nota innlend aðföng til að framleiða um þúsund þotur fyrir árið 2030, að sögn ríkisreknu fyrirtækjasamsteypunnar Rostec.
10. Big Short fjárfestir seldi nær öll hlutabréfin sín
Vogunarsjóður Michael Burry, eins af fjárfestunum í kvikmyndinni The Big Short, losaði sig við öll skráð hlutabréf í Bandaríkjunum nema í einu félagi.