1. Kaupa Urðarhvarf 16 á 3,5 milljarða

Níu hæða atvinnuhúsnæði í Urðarhvarfi í Kópavogi var selt fyrir tæplega 3,5 milljarða króna á seinni hluta ársins. Kaupandi var fyrirtækið Súlur Reykjavík ehf., sem er í eigu Kristjáns M. Grétars­sonar, Magnúsar Ár­manns, Lilju Þóreyjar Guð­munds­dóttur og Sturlu Bjarnar John­sen. Árið 2021 keyptu Kristján, Sturla og Teitur Guðmundsson, eiginmaður Lilju, Urðarhvarf 16 á 1,75 milljarða. Kaupendur reka heilsugæslustöð Heilsuverndar í Urðarhvarfi en Lilja Þórey og Sturla eru eig­endur Heilsu­verndar ehf.

2. Keypti Drápuhlíð 14-16 á 341 milljón af ríki og borg

Hekla fasteignir ehf., félag í eigu Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu, gekk í lok árs frá kaupum á fasteigninni að Drápuhlíð 14-16 fyrir ríflega 341 milljón króna af ríkissjóði og Reykjavíkurborg. Húsnæðið hýsti áður heilsugæslu en hafði staðið tómt frá sumrinu 2023 og nú stendur til að koma sex íbúðum fyrir í húsnæðinu.

3. Keypti neðst á Laugavegi fyrir 1,3 milljarða

Norska athafnakonan Kirsten Holmen festi kaup á fasteignum að Laugavegi 4-6, þar sem hún hafði rekið ísbar frá árinu 2019, og Skólavörðustíg 1a, þar sem var að finna íbúðahótelið Ava Apartments. Kaupverðið nam samtals 1.263 milljónum króna en seljandiv var Fasteignaauður II, sjóður í umsjón Kviku banka.

4. Kristján og Leó kaupa 700 milljóna hótel

Sigtún þróunarfélag, fasteignaþróunarfélag sem stendur að uppbyggingu í miðbæ Selfoss, festi kaup á hótelinu 360° Boutique Hotel í Flóahreppi fyrir 700 milljónir króna. Félagið, sem er í eigu Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra Samherja, og Leó Árnasonar fjárfestis, hafði í hyggju að hefja framkvæmdir við stækkun hótelsins en kaupsamningur náði til fasteignarinnar sjálfrar, baðhúss og hótelrekstursins sem starfræktur var í eigninni.

5. Ágúst kaupir Esso-húsið

Ágúst Guðmundsson, einn stofnenda og aðaleiganda Bakkavarar, festi kaup á fasteigninni að Suðurlandsbraut 18 á 1.470 milljónir króna í apríl í gegnum nýstofnaða félagið SB18 ehf. Fasteignin, sem er um 3.400 fermetrar að stærð, er í daglegu tali betur þekkt sem Esso-húsið en við kaupin var Kvikmyndaskóli Íslands helsti leigutakinn.