Fjarskiptafélagið Sýn var nefnt oftast yfir þau félög sem munu lækka mest á markaði á á árinu 2023 í könnun Viðskiptablaðsins meðal markaðsaðila, sem framkvæmd var dagana 5. til 9. janúar. Gengi bréfa Sýnar sveiflaðist nokkuð yfir árið 2022 en var þó svipað í byrjun og lok árs, nálægt 60 krónum á hlut.

Árið 2022 var nokkuð viðburðaríkt í rekstri félagsins. Heiðar Guðjónsson seldi 12,72% hlut sinn í félaginu fyrir ríflega 2,2 milljarða króna til fjárfestingafélagsins Gavia Invest og tilkynnti um starfslok sín sem forstjóri félagsins. Yngvi Halldórsson tók við starfinu af Heiðari í lok september. Í kjölfarið var tvívegis boðað til stjórnarkjörs hjá Sýn.

Í fyrra stjórnarkjörinu voru Reynir Grétarsson, stærsti eigandi Gavia Invest, og Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri Reirs verks sem þá hafði keypt 7,7% hlut í Sýn, ekki kjörnir í stjórn Sýnar. Í síðara stjórnarkjörinu fengu nýir hluthafar þrjá stjórnarmenn af fimm kjörna. Í lok nóvember tilkynnti Sýn um uppsagnir og skipulagsbreytingar sem spara eiga félaginu 650 milljónir á ári auk þess að starfseminni var skipt í kjarnaeiningarnar fjarskipti og fjölmiðla.

Heiðar Guðjónsson seldi 12,72% hlut sinn í Sýn á árinu fyrir ríflega 2,2 milljarða króna.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Nánar er fjallað um könnunina í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.