Þriðjungur þátttakenda könnunar Viðskiptablaðsins meðal markaðsaðila telur að Sýn muni lækka mest allra félaga á markaði á árinu. Gengi bréfa félagsins lækkaði um þriðjung á síðasta ári eftir að hafa lækkað um fimmtung árið áður.
Könnunin var send á 276 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudag síðastliðinn og bárust 121 svör sem jafngildir 44% svarhlutfalli.
Þá telur 18% svarenda að Play muni lækka mest á árinu. Hlutabréf flugfélagsins voru tekin til viðskipta á aðalmarkaði í ágúst sl., en félagið hafði fram að því verið skráð á First North-markaðinn í rúm þrjú ár.
Gengi bréfa félagsins lækkaði um 87% á síðasta ári og stendur nú í rétt rúmlega einni krónu á hlut.
Play boðaði í október sl. grundvallarbreytingu á viðskiptalíkani sínu frá og með miðju ári 2025. Breytingin felur í sér að áfangastöðum í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verði fækkað en áætlun félagsins til Suður-Evrópu efld.
Í tilkynningu flugfélagsins er bent á að bein flug til áfangastaða félagsins í Suður-Evrópu hafi verið arðbær frá upphafi. Aftur á móti hafi afkoma félagsins af tengiflugi yfir Atlantshafið valdið vonbrigðum, sérstaklega á árinu 2024.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.