Það stefnir allt í að 2024 verði versta ár kauphallarinnar í London frá fjármálahruninu hvað varðar afskráningar. Óttast er að fleiri félög innan FTSE 100 vísitölunnar muni færa sig af breska markaðnum og yfir á bandaríska hlutabréfamarkaðinn, að því er segir í umfjöllun Financial Times.

Alls hafa 88 félög afskráð sig eða fært aðalskráningu sína frá aðallista kauphallarinnar í London í ár. Einungis átján félög hafa hins vegar verið skráð á aðallista bresku kauphallarinnar það sem af er ári.

Ekki hefur verið meira nettó útflæði félaga frá aðalmarkaðnum frá árinu 2009. Jafnframt stefnir í að fjöldi nýskráninga nái fimmtán ára lágmarki.

Tilraunir breskra stjórnvalda, eftirlitsaðila og kauphallarinnar til að laða að félög á markaðinn með endurskoðun regluverks á markaðnum og breytinga í breska lífeyriskerfinu virðast þannig ekki hafa dugað til við að snúa þróuninni við enn sem komið er.

David Schwimmer, forstjóri London Stock Exchange Group.
© epa (epa)

Viðmælendur FT segja að með því að flytja sig yfir á bandaríska hlutabréfamarkaðinn geti félög nálgast stærra mengi af fjárfestum og gjarnan sé meiri seljanleiki og vestanhafs.

Þá hafi tekjur í Bandaríkjunum hjá mörgum félögum breska markaðarins aukist talsvert á undanförnum árum. Rekja má yfir helming af tekjum níu félaga í FTSE 100 vísitölunni til Bandaríkjanna.

Greinandi Goldman Sachs sagði í bréfi til viðskiptavina fyrir helgi að fleiri bresk fyrirtæki séu að velta því fyrir sér að færa skráningu sína til Bandaríkjanna.

Úttekt Financial Times í fyrra leiddi í ljós að breska kauphöllin væri í mestri hættu meðal stórra hlutabréfamarkaða að missa frá sér stór fyrirtæki til Bandaríkjanna. Úttektin byggði m.a. á afslætti á verðmati félaganna borið saman við markaðsvirði bandarískra félaga út frá kennitölum. Jafnframt var skoðað hlutfall tekna sem félögin afla í Bandaríkjunum og hlutfall bandarískra fjárfesta í hluthafahópum.