Meira en 200 þúsund flugvélar flugu í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið árið 2024 samkvæmt Isavia ANS, sem er metár fyrir flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík. Þá segir að rúmlega 540 flugvélar fljúgi um flugstjórnarsvæðið á sólarhring.

Isavia ANS er dótturfélag Isavia og sinnir flugleiðsöguþjónustu í innanlands- og alþjóðaflugi innan íslenska flugstjórnarsvæðisins.

„Árið 2024 var viðburðaríkt hjá Isavia ANS og var flugumferðin á íslenska flugstjórnarsvæðinu sú mesta frá upphafi, bæði talið í fjölda fluga og fjölda floginna kílómetra á svæðinu. Við búumst við enn meiri flugumferð á árinu 2025,“ segir Kjartan Briem, framkvæmdastjóri Isavia ANS.

Hjá fyrirtækinu starfa um 290 starfsmenn, þar af um 100 flugumferðarstjórar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Icelandair var þá stærsti viðskiptavinur Isavia ANS en þar á eftir koma Turkish Airlines, United Airlines, Play, Lufthansa og Scandinavian Airlines.

Íslenska flugstjórnarsvæðið er um fimm og hálf milljón ferkílómetrar að stærð og er eitt stærsta flugstjórnarsvæði heims. Svæðið nær frá Greenwich-lengdarbaugnum í austri og vestur fyrir Grænland, frá Norðurpólnum og suður fyrir Færeyjar, langleiðina til Skotlands.