Sætanýting Icelandair var 82,4% í síðasta mánuði og hefur aldrei verið meiri hjá flugfélaginu í nóvembermánuði. Sætanýtingin jókst um sjö prósentur milli ára, samkvæmt nýbirtum flutningatölum.

„Aukin sætanýting í mánuðinum er sambland af mikilli eftirspurn í ár og veikari eftirspurn í nóvember í fyrra sem skýrðist af áhrifum jarðhræringanna á Reykjanesi.“

Icelandair flutti yfir 300 þúsund farþega í nóvember, 6,4% fleiri en á sama tíma í fyrra. Þar af voru 34% farþega á leið til Íslands, 19% frá Íslandi, 41% ferðuðust um Ísland og 6% innan Íslands.

Það sem af er ári hefur Icelandair flutt 4,3 milljónir farþega, 8% fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Stundvísi í leiðakerfinu var 84,7%.

Icelandair segir að það hafi verið mikil eftirspurn í innanlandsflugi en vegna veðurs á Íslandi í nóvember hafi flugferðum fækkað innanlands um 15% sem hafi haft áhrif á farþegafjölda í mánuðinum.

Úr tilkynningu Icelandair.

„Það er ánægjulegt að sjá hlutfall farþega til Íslands halda áfram að aukast. Auk þess var mikill kraftur í ferðalögum Íslendinga út fyrir landsteinana en 8% aukning var á markaðnum frá Íslandi á milli ára. Stundvísi og sætanýting er áfram mjög góð, sem staðfestir styrk og áreiðanleika leiðakerfisins. Leiguflugsstarfsemin okkar er mikilvæg til þess að auka nýtingu flugvéla yfir vetrartímann og það var ánægjulegt að sjá umtalsverða aukningu í þeim hluta rekstrarins á milli ára,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
„Fyrr í vikunni tókum við á móti fyrstu Airbus flugvélinni í sögu Icelandair. Um er að ræða mikil tímamót og við erum spennt fyrir því að hefja áætlunarflug á þessari glænýju og hagkvæmu vél í næstu viku.“