Virði Nóa-Síríus var bókfært á 208 milljónir norskra króna, um þrjá milljarða íslenskra króna, um áramótin í ársskýrslu norska matvælarisans Orkla, sem keypti félagið að fullu á síðasta ári.

Orkla kom fyrst inn í hluthafahóp Nóa-Síríusar árið 2019 þegar það keypti 20% hlut á tæplega hálfan milljarð króna. Árið 2019 samdi Orkla um að það gæti keypt hin 80% í félaginu eftir árið 2020, sem Orkla nýtti sér.

Fram að sölunni hafði Nói-Síríus verið í eigu Hallgríms Benediktssonar og afkomenda frá því að Hallgrímur eignaðist Nóa árið 1924. Finnur Geirsson, barnabarn Hallgríms, lét af störfum sem forstjóri Nóa-Sírusar eftir 31 árs starf við kaup Orkla í fyrra.

Samkvæmt ársskýrslu Orkla er heildarvirði (e. enterprise value) Nóa-Síríusar 230 milljónir norskra króna, um 4,7 milljarðar íslenskra króna, en það er virði bæði eigin fjár og skulda félagsins. Eignir Nóa-Síríusar námu 4,4 milljörðum króna í árslok 2020, fimm mánuðum fyrir kaup Orkla, samkvæmt nýjasta samþykkta ársreikningi félagsins en skuldir voru 2,6 milljarðar króna og eigið fé 1,8 milljarðar króna.

Í ársreikningum tveggja stærstu hluthafa Nóa-Síríusar fyrir söluna til Orkla kemur fram að Orkla hafi greitt 14 krónur á hlut þegar það keypti 20% hlut í Nóa-Síríusi árið 2019. Það samsvarar því að Orkla hafi greitt um 484 milljónir króna fyrir hlutinn og eigið fé Nóa-Síríusar í heild væri því um 2,4 milljarða virði.

Þriðjungshlutur hjónanna Finns Geirssonar og Steinunnar Þorvaldsdóttir eftir viðskiptin árið 2019 í Nóa-Síríusi var metinn á um 800 milljónir króna. Þá var tæplega 39% hlutur systkinanna Áslaugar, Gunnars Snorra og Hallgríms Gunnarsbarna, í Nóa-Síríusi bókfærður á um 940 milljónir króna.

Enginn á hlutabætur þrátt fyrir verkefnaskort

Afkoma Nóa-Síríusar hefur þokast niður frá metárinu 2016 þegar fyrirtækið hagnaðist um 325 milljónir króna. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi Nóa-Síríusar kemur fram að heimsfaraldurinn hafi rýrt afkomu félagsins vegna fækkunar ferðamanna og samkomutakmarkana. Auk þess var tekin ákvörðun um að nýta ekki hlutabótaleið né styrki vegna sóttkvíar þó að starfsmenn hafi verið sendir heim vegna verkefnaskorts og í sóttkvíar. NóiSíríus tapaði 42 milljónum árið 2020, sem var hundraðasta starfsár félagsins.

Rekstrarhagnaður nam 53 miljónum króna miðað við 220 milljóna rekstrarhagnað árið 2019.  Félagið hóf árið 2017 með umtalsverðum fjárfestingum í vélum og tækjabúnaði, sem nam um tveimur milljörðum króna árin 2017 til 2020. Uppsetning og gangsetning tækja tók tíma og dró úr sölu á árunum 2018 og 2019 samkvæmt skýrslu stjórnar félagsins.

Bjartari horfur voru þó yfir á árinu 2021. Í ársskýrslu Orkla kemur fram að tekjur Nóa-Síríusar hafi numið 2,4 milljörðum króna frá því að kaupin gengu í gegn í júní til áramóta miðað við tæplega 1,5 milljarða króna veltu á fyrri hluta ársins. Þá nam aðlagaður rekstrarhagnaður Nóa-Síríusar í fyrra um 180 milljónum króna eftir að kaupin gengu í gegn til áramóta en rekstrarafkoman hafi verið við núllið fram að því.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .