Að mati Arctica Finance er virði eiginfjár Eikar rúmir 54 milljarðar króna sem jafngildir um 15,8 krónum á hlut. Það samsvarar um 43,6% hærra verði á hlut en yfirtökutilboð Langasjávar í allt hlutafé fasteignafélagsins sem hljóðar upp á 11 krónur á hlut.
Stjórn Eikar birti eftir lokun markaða í gær greinargerð sína í tengslum við yfirtökutilboðið en stjórnin metur tilboðsverðið of lágt þegar það er borið saman við vænt virði framtíðarsjóðstreymis og arðgreiðslna.
Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Langasjávar, sem tók sæti í stjórn Eikar í mars síðastliðnum, fer fyrir yfirtökutilboði fyrrnefnda félagsins en hann hefur vikið sæti í stjórn Eikar á meðan á ferlinu stendur.
Stjórn Eikar óskaði einnig eftir áliti frá KPMG hvað varðar eigið fé félagsins og reiknaði endurskoðendafyrirtækið eiginfjár Eikar að 52,5 milljarða króna virði. Samsvarar það um 15,4 krónum á hlut.
Langisjór, sem á meðal annars Ölmu íbúðafélag og fjárfestingarfélagið Brimgarða, lagði fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar á dögunum eftir að félagið eignaðist yfir 30% hlut.
Tilboðsverð Langasjávar hljómar upp á 11 krónur fyrir hvern hlut en þegar tilboðið var lagt fram var hæsta verð sem einhver hafði greitt fyrir hlutabréf í Eik á síðustu sex mánuðum 11,2 fyrir hvern hlut.
Dagslokagengi Eikar í gær var þó 12,3 krónur sem er 28,5% hærra á hlut en tilboðsverð Langasjávar.
Í skýrslu stjórnarinnar segir að dagslokagengi gærdagsins sýni að hluthafar Eikar séu sammála mati þeirra um að tilboðsverðið sé of lágt.
Vilja eignast ráðandi hlut
Samkvæmt tilboðsyfirliti Langasjávar í lok september átti Langisjór og samstarfsaðilar þess 1.106.281.964 hluti, sem samsvarar 32,31% af heildaratkvæðisrétti í Eik.
Langisjór er því afar nálægt því að eignast 34% hlut en við það þarf fjárfestingafélagið að samþykkja allar stærri ákvarðanir Eikar.
Samkvæmt tilboðsyfirlitinu er það meginmarkmið Langasjávar að eignast meirihluta í félaginu en viðhalda skráningu á markaði.
Langisjór er í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna sem oft eru kennd við heildverslunina Mata.
Langisjór keypti í lok ágúst 6 milljónir hluta í Eik fasteignafélagi auk þess að taka við 442 milljónum hluta frá dótturfélagi sínu Brimgörðum. Við það myndaðist tilboðsskylda.
„Orðsporsáhætta tengd rekstri íbúðarhúsnæðis“
Samkvæmt áætlunum Langasjávar verður stefnt að því að auka skuldsetningu Eikar til að auka arðsemi eigin fjár félagsins án þess þó að stefna fjárhagslegum stöðugleika þess í hættu.
Stjórn Eikar tekur undir með Langasjó að það sé fýsilegt að skuldsetja félagið frekar að teknu tilliti til lánskjara og áhættu. Sú stefna kom einnig fram í ársskýrslu Eikar fyrir árið 2023 en þar segir að langtímamarkmið félagsins væri 60% nettó veðhlutfall en hlutfallið stóð í 56,4% í sex mánaða uppgjöri í ár.
Langisjór leggur einnig til að hlé verði gert á frekari uppbyggingu Eikar á safni atvinnueigna og að könnuð verði kostgæfni þess að Eik sinni uppbyggingu og útleigu íbúðarhúsnæðis til almennings að norrænni fyrirmynd.
Stjórn Eikar telur það ganga í berhögg við stefnu félagsins að gera hlé á frekari uppbyggingu. Þá er það mat stjórnarinnar að arðsemi á útleigu íbúðarhúsnæðis sé mun lægri heldur en á útleigu atvinnuhúsnæðis og meiri kvaðir séu á slíkri starfsemi.
„Jafnframt hefur stjórn talið að orðsporsáhætta tengd rekstri íbúðarhúsnæðis sé töluverð og að hópur hluthafa kunni að vera afhuga þeim þætti starfseminnar ylli því að mengi mögulegra fjárfesta kynni að minnka og þar með seljanleiki hlutabréfa Eikar,“ segir í skýrslu stjórnar.
Hvað varðar áætlanir Langasjávar um að breyta Eik í arðgreiðslufélag, sem greiði hluthöfum árlega arðgreiðslu sem samsvarar að jafnaði ekki lægra hlutfalli en 75% af handbæru fé frá rekstri næstliðins árs, segir stjórnin Eik nú þegar arðgreiðslufélag.
Eik hefur árlega greitt út 50% af handbæru fé frá rekstri að frádreginni upphæð sem yrði nýtt í kaup á eigin bréfum fram að boðun næsta aðalfundar frá árinu 2021. Á síðasta aðalfundi var samþykkt að hækka hlutfallið í 75% og segir stjórnin því stefnu Eikar í þessum málum skýra.