Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um hvernig viðskiptahagkerfinu vegnaði á síðasta ári samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Í blaðinu voru sjö atvinnugreinar bornar saman, þar á meðal ferðaþjónusta, tækni- og hugverkaiðnaður, sjávarútvegur, byggingageirinn og fasteignaviðskipti. Þar að auki er fluggeirinn skoðaður, sem flokkast undir ferðaþjónustu.

Fasteignamarkaðurinn var í hæstu hæðum árið 2021. Arðsemi eigin fjár í fasteignaviðskiptum var 19,3% á síðasta ári samanborið við á bilinu 7-8% árin á undan.

Þá nam hagnaður af fasteignaviðskiptum hvorki meira né minna en 178 milljörðum króna á síðasta ári, rúmlega þrefalt meiri hagnaður en á árunum á undan og tvöfalt meiri en á metárinu 2017.

Þess má geta að afkoman í fasteignaviðskiptum var tvöfalt meiri en í sjávarútvegi, næst arðbærustu greininni. Þá var hagnaður í fasteignaviðskiptum fjórðungur af öllum hagnaði viðskiptahagkerfisins árið 2021.

Samkvæmt Þjóðskrá fjölgaði kaupsamningum um 13,6% á milli ára á síðasta ári. Þá nam heildarfasteignavelta á síðasta ári um 850 milljörðum króna og jókst um 23,3% milli ára. Fjöldi fasteigna sem gekk kaupum og sölum á landinu öllu var rúmlega 16 þúsund talsins.

Íbúðaverð hækkaði um 18,4% á árinu og meðalkaupverð á íbúð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði meira á milli áranna 2020 og 2021 en samanlagt á árunum 2017-2020, fór úr 56 milljónum í 63 milljónir króna.

Nánar er fjallað um viðskiptahagkerfið á síðasta ári í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.