Styrkás-samstæðan skilaði metafkomu á árinu 2024 þar sem rekstrarhagnaður (EBIT) án IFRS-áhrifa nam 2,3 milljörðum króna, eða 4% yfir rekstraráætlun.
Öll kjarnasvið samstæðunnar skiluðu góðri rekstrarafkomu samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu en leigutekjur jukust um rúmlega 50% og námu 1 milljarði króna á árinu.
Samstæðan stendur vel fjárhagslega með handbært fé upp á 4,8 milljarða króna í árslok og nettó vaxtaberandi skuldir upp á 1,8 milljarða króna. Handbært fé móðurfélags nam 2,8 milljörðum króna og veitir félaginu gott svigrúm til frekari vaxtar.
Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss, segir árangurinn vera ávöxt mikillar vinnu starfsfólks.
„Við erum stolt af árangri Styrkás samstæðunnar á liðnu ári. Félögin okkar skiluðu met þrátt fyrir áskoranir í ytra umhverfi. Við erum bjartsýn á árið 2025, sem fer kröftuglega af stað, og munum áfram leggja áherslu á að veita fyrirtækjum framúrskarandi þjónustu og stíga markviss skref í frekari vexti,“ segir Ásmundur.
Skel fjárfestingarfélag greindi frá því í gær að félagið hyggðist bjóða 10-15% hlutafjár í Styrkási til sölu til hornsteinsfjárfesta á næstunni.
„Markmiðið er að félagið teljist ekki dótturfélag Skeljar og laða að langtímafjárfesta,” segir í fjárfestakynningunni.
Styrkás, sem stefnir á skráningu í Kauphöllina á árinu 2027, er í 63,4% eigu Skeljar fjárfestingafélags og 27% í eigu framtakssjóðsins Horn IV. Meðal annarra hluthafa er Máttarstólpi ehf., í eigu Ásgeirs Þorlákssonar, og starfsmenn.
Skel færði upp virði 63,4% eignarhlutar síns í Styrkási um liðlega þriðjung á síðasta ári og mat hann á 13 milljarða króna um áramótin. Matið byggir á síðasta viðskiptaverði með hlutafé félagsins.
Í fréttatilkynningu Styrkás í morgun er farið yfir öll helstu kjarnasvið samstæðunnar en Klettur sala og þjónusta skilaði góðum vexti með 9% aukningu í þjónustutekjum.
Sala á Scania-vörubílum og hópferðabílum náði hámarki á árinu, auk þess sem pantanabók fyrir CAT-vinnuvélar á komandi ári er sterk.
Skeljungur skilaði metafkomu, með 5% aukningu í seldu eldsneytismagni á milli ára. Þá jókst sala á öðrum vörum, meðal annars vegna nýs innflutnings á biki fyrir malbiksgerð.
Stólpi jók tekjur sínar um 6% milli ára, drifnar áfram af sölu og leigu á gáma- og húseiningalausnum. Þó var afkoma í smiðju- og kæliþjónustu undir væntingum, en viðsnúningur varð undir lok árs.
Þá gerir félagið ráð fyrir um 10% aukningu á rekstrarhagnaði í tækja- og búnaðarsviði Kletts í ár, þar sem nýtt þjónustuverkstæði í Hafnarfirði mun styðja við vöxt í þjónustutekjum.
Áætlanir gera einnig ráð fyrir 10% aukningu hjá Stólpa, knúna af vaxandi eftirspurn eftir húseiningum og gámaþjónustu. Nýtt 1.500 fermetra húsnæði við Gullhellu í Hafnarfirði verður tekið í notkun um mitt ár, sem styrkir starfsemina enn frekar.
Í eignaþróun stendur Styrkás að uppbyggingu á 30.000 fermetra lóð við Tinnhellu og 3.000 fermetra byggingarrétt í Sægörðum, sem mun skapa frekari vaxtartækifæri.
Skeljungur sér fram á lítils háttar samdrátt árið 2025 vegna minnkandi sölu á skipaeldsneyti, sem rekja má til aukinna kolefnisgjalda og flutnings eldsneytissölu til nágrannalanda.
Samhliða þessu heldur Styrkás áfram að innleiða miðlæga þjónustu fyrir dótturfélög sín, með það að markmiði að auka hagkvæmni og lækka kostnað.
Í lok ársins 2024 tilkynnti Styrkás um kaup á 100% hlut í Hringrás, sem er nú í áreiðanleikakönnun. Stefnt er að því að ljúka viðskiptunum á öðrum ársfjórðungi 2025, en áhrif þeirra eru ekki innifalin í afkomuspá.