Styrkás-sam­stæðan skilaði metaf­komu á árinu 2024 þar sem rekstrar­hagnaður (EBIT) án IFRS-áhrifa nam 2,3 milljörðum króna, eða 4% yfir rekstraráætlun.

Öll kjarna­svið sam­stæðunnar skiluðu góðri rekstrar­af­komu sam­kvæmt frétta­til­kynningu frá félaginu en leigu­tekjur jukust um rúm­lega 50% og námu 1 milljarði króna á árinu.

Sam­stæðan stendur vel fjár­hags­lega með hand­bært fé upp á 4,8 milljarða króna í árs­lok og nettó vaxta­berandi skuldir upp á 1,8 milljarða króna. Hand­bært fé móðurfélags nam 2,8 milljörðum króna og veitir félaginu gott svigrúm til frekari vaxtar.

Ás­mundur Tryggva­son, for­stjóri Styrkáss, segir árangurinn vera ávöxt mikillar vinnu starfs­fólks.

„Við erum stolt af árangri Styrkás sam­stæðunnar á liðnu ári. Félögin okkar skiluðu met­ þrátt fyrir áskoranir í ytra um­hverfi. Við erum bjartsýn á árið 2025, sem fer kröftug­lega af stað, og munum áfram leggja áherslu á að veita fyrir­tækjum framúr­skarandi þjónustu og stíga mark­viss skref í frekari vexti,“ segir Ás­mundur.

Skel fjár­festingarfélag greindi frá því í gær að félagið hyggðist bjóða 10-15% hluta­fjár í Styrkási til sölu til horn­steins­fjár­festa á næstunni.

„Mark­miðið er að félagið teljist ekki dóttur­félag Skeljar og laða að langtíma­fjár­festa,” segir í fjár­festa­kynningunni.

Styrkás, sem stefnir á skráningu í Kaup­höllina á árinu 2027, er í 63,4% eigu Skeljar fjár­festingafélags og 27% í eigu fram­taks­sjóðsins Horn IV. Meðal annarra hlut­hafa er Máttar­stólpi ehf., í eigu Ás­geirs Þor­láks­sonar, og starfs­menn.

Skel færði upp virði 63,4% eignar­hlutar síns í Styrkási um lið­lega þriðjung á síðasta ári og mat hann á 13 milljarða króna um áramótin. Matið byggir á síðasta við­skipta­verði með hluta­fé félagsins.

Í frétta­til­kynningu Styrkás í morgun er farið yfir öll helstu kjarna­svið sam­stæðunnar en Klettur sala og þjónusta skilaði góðum vexti með 9% aukningu í þjónustu­tekjum.

Sala á Scania-vöru­bílum og hóp­ferða­bílum náði há­marki á árinu, auk þess sem pantana­bók fyrir CAT-vinnu­vélar á komandi ári er sterk.

Skeljungur skilaði metaf­komu, með 5% aukningu í seldu elds­neytis­magni á milli ára. Þá jókst sala á öðrum vörum, meðal annars vegna nýs inn­flutnings á biki fyrir mal­biks­gerð.

Stólpi jók tekjur sínar um 6% milli ára, drifnar áfram af sölu og leigu á gáma- og hús­eininga­lausnum. Þó var af­koma í smiðju- og kæliþjónustu undir væntingum, en viðsnúningur varð undir lok árs.

Þá gerir félagið ráð fyrir um 10% aukningu á rekstrar­hagnaði í tækja- og búnaðar­sviði Kletts í ár, þar sem nýtt þjónustu­verkstæði í Hafnarfirði mun styðja við vöxt í þjónustu­tekjum.

Áætlanir gera einnig ráð fyrir 10% aukningu hjá Stólpa, knúna af vaxandi eftir­spurn eftir hús­einingum og gámaþjónustu. Nýtt 1.500 fer­metra húsnæði við Gull­hellu í Hafnarfirði verður tekið í notkun um mitt ár, sem styrkir starf­semina enn frekar.

Í eignaþróun stendur Styrkás að upp­byggingu á 30.000 fer­metra lóð við Tinn­hellu og 3.000 fer­metra byggingarrétt í Sægörðum, sem mun skapa frekari vaxtartækifæri.

Skeljungur sér fram á lítils háttar sam­drátt árið 2025 vegna minnkandi sölu á skipa­elds­neyti, sem rekja má til aukinna kol­efnis­gjalda og flutnings elds­neytissölu til nágranna­landa.

Sam­hliða þessu heldur Styrkás áfram að inn­leiða miðlæga þjónustu fyrir dóttur­félög sín, með það að mark­miði að auka hag­kvæmni og lækka kostnað.

Í lok ársins 2024 til­kynnti Styrkás um kaup á 100% hlut í Hringrás, sem er nú í áreiðan­leikakönnun. Stefnt er að því að ljúka við­skiptunum á öðrum árs­fjórðungi 2025, en áhrif þeirra eru ekki inni­falin í af­komu­spá.