17,4 milljónir farþega flugu með Ryanair í júní en aldrei áður hafa jafn margir farþegar flogið með flugfélaginu á einum mánuði.

Í samanburði við sama mánuð í fyrra jókst farþegafjöldinn um 9%. Þetta er annan mánuðinn í röð sem metfjöldi farþega ferðast með Ryanair en í maí flugu 17 milljónir farþega með lággjaldaflugfélaginu.

Það sem gerir árangurinn enn athyglisverðari er sú staðreynd að Ryanair neyddist til að fella niður ríflega 900 áætlunarflug í júní vegna verkfalla flugvallarstarfsmanna.

Sætanýting var með besta móti í júní, eða um 95% að meðaltali.