Samkvæmt nýjustu tölum frá bresku hagstofunni hafa rúmlega tvær og hálf milljónir Breta hætt í vinnu vegna heilsufarsvanda. Helsta ástæðan virðist vera lakari geðheilsa meðal ungs fólks og aukin tíðni háls- og bakverkja.

Síðan heimsfaraldur byrjaði yfirgáfu tæplega 400.000 breskir starfsmenn vinnumarkaðinn sökum heilsubrests. Hagstofan segir að eftir afléttingu sóttvarnarreglna hafi þreyta aukist meðal ungs vinnandi fólks og geðheilsa þeirra versnað til muna.

Darren Morgan, forstöðumaður hagfræðideildar bresku hagstofunnar, segir þetta vera skýrt dæmi um langvarandi áhrif heimsfaraldursins.

Breska efnahagskerfið hefur verið lengur að ná bata en mörg önnur hagkerfi í heiminum en ein ástæða er að fjöldi verkafólks sem hætti að vinna á tímum heimsfaraldursins hefur ekki mætt aftur á vinnumarkað. Atvinnuleysi í Bretlandi eftir fyrsta ársfjórðung er nú 3,9% og dróst hagvöxtur einnig saman um 0,4%.

„Við ættum að hafa áhyggjur af þeim mikla fjölda sem getur ekki unnið sökum heilsufarsvandræða. Við höfum einnig gert of lítið til að takast á við þennan vanda og nánast ekkert hefur breyst frá því hagstofan byrjaði fyrst að greina frá þessu,“ segir Neil Carberry, framkvæmdastjóri atvinnumálasamtaka Bretlands.